Hæstiréttur Suður-Kóreu staðfesti í dag lífstíðarfangelsisdóm yfir skipstjóra ferjunnar Sewol en hann var dæmdur fyrir morð. Alls fórust 304 þegar ferjan sökk og var skipstjórinn talinn bera ábyrgð á dauða þeirra til þess að bjarga eigin skinni.
Alls voru 476 um borð í Sewol þegar hún sökk skammt frá Jindo eyju 16. apríl í fyrra. Af þeim 304 sem fórust voru 250 nemendur í sama skóla sem voru að koma úr skólaferðalagi.
Undirréttur í borginni Gwangju sýknaði skipstjórann, Lee Jun-Seok, af ákæru um morð í nóvember í fyrra og dæmdi hann sekan um alvarlega vanrækslu í starfi og dæmdi hann í 36 ára fangelsi. Áfrýjunardómstóll dæmdi hann hins vegar sekan um morð og í lífstíðarfangelsi.
Saksóknarar kröfðust þess að Lee, sem er 69 ára að aldri, yrði tekinn af lífi vegna þess að hann hafi yfirgefið farþega ferjunnar þrátt fyrir að hann hafi vitað að þeir myndu farast. Óábyrg hegðun hans hafi valdið dauða ungra námsmanna.