Salah Abdeslam, sem lögreglan leitar nú í tengslum við árásirnar í París, er einn þriggja bræðra sem sagðir eru hafa komið að árásunum. Talið er mögulegt að hann hafi búið til sprengjur sem notaðar voru í árásunum. Þetta segir Nathalie Goulet, franskur þingmaður, við CNN. Franska lögreglan sagði í kvöld að Abdeslam hefði verið yfirheyrðu nokkrum klukkustundum eftir árásirnar en sleppt að þeim loknum. Bíll hans hefði verið stöðvaður á laugardagsmorgunn, Abdeslam hafi verið beðinn að sýna skilríki en svo leyft að halda för sinni áfram.
Einn bróðirinn, sem hefur enn ekki verið nafngreindur, var handtekinn í Brussel í gær. Sá þriðji, Ibrahim Abdeslam, er talinn hafa tekið þátt í árásinni í Bataclan-tónleikahöllinni og sprengt sig þar í loft upp. Þeir voru allir franskir ríkisborgarar en búsettir í Belgíu.
Í frétt Le Monde segir að tveir bræðranna hafi leigt tvo bíla í Belgíu sem notaðir voru í árásunum í París. Bílarnir voru af gerðunum Volkswagen Polo og Seat. Salah Abdeslam leigði Poloinn en sá fannst í nágrenni Bataclan-hallarinnar þar sem 89 manns létu lífið í skot- og sprengjuárás.
Þriðji bróðirinn, sem enn hefur ekki verið nafngreindur, var meðal þeirra sjö manna sem handteknir voru í Molenbeek-Saint-Jean hverfinu í Brussel í gær. Enn hafa litlar persónulegar upplýsingar komið fram um bræðurna.
Seat-bifreiðin er talin hafa verið notuð af árásarmönnunum sem skutu á fólk á veitingastað í miðborg Parísar á föstudag. Hún fannst í dag í úthverfi í austurhluta Parísar. Í henni fundust m.a. rifflar af þeirri gerð sem notaðir voru við árásirnar. Þá fundust einnig fingraför.
Abdeslam Salah, sem nú er eftirlýstur, er talinn hafa tekið beinan þátt í árásunum. Hann er 26 ára og sagður hættulegur. Í frétt AFP segir að hann hafi fæðst í Belgíu en frönsk yfirvöld hafa sagt að hann sé franskur ríkisborgari.
Sjö árásarmenn féllu í árásunum. Sex sprengdu sig í loft upp og einn var skotinn til bana af lögreglu. Grunur vaknaði hins vegar um að fleiri árásarmenn hefðu tekið þátt er flóttabíll fannst í dag í Montreuil, austur af París. Þegar Ríki íslam lýsti yfir ábyrgð á voðaverkunum í gær kom fram að „átta bræður“ hefðu tekið þátt í árásinni. Það renndi einnig stoðum undir það að í það minnsta einn árásarmaður hefði komist undan í lífi.
Sjö hafa verið handteknir í Belgíu í gær og í dag og sjö voru einnig teknir til yfirheyrslu í Frakklandi.
Í kvöld var svo lýst eftir Salah Abdeslam og alþjóðleg handtökuskipun gefin út. Hann er sagður sérfræðingur í samskiptum. Í frétt New York Times er haft eftir evrópskum sérfræðingum að árásarmennirnir hafi átt samskipti sín á milli með dulkóðuðum skilaboðum. Ekki er staðfest hvernig þau samskipti fóru nákvæmlega fram, t.d. hvort notast hafi verið við þekkt samskiptaforrit á borð við WhatsApp, en yfirvöldum hefur reynst erfitt að fylgjast með samskiptum í gegnum slík forrit.
Talið er að flestir ef ekki allir árásarmennirnir hafi búið í Belgíu. Að minnsta kosti þrír þeirra voru þó franskir ríkisborgarar.
Ljóst þykir að árásarhópurinn í París átti í samskiptum við þekkta vígamenn Ríkis íslams og líklegt að samtökin hafi tekið þátt í að skipuleggja árásina og þjálfa hópinn.
Íraski utanríkisráðherrann, Ibrahim al-Jaafar, segir að íraska lögreglan hafi komist yfir upplýsingar um að Ríki íslam væri að skipuleggja fleiri árásir, mögulega á Frakkland, Bandaríkin og Íran. „Við höfum haft samband við þessi lönd og varað þau við.“
Á föstudag var lýst yfir neyðarástandi í Frakklandi vegna árásanna og ráðamenn þar í landi ætla að halda því öryggisstigi í þrjá mánuði.