Saksóknarar í Frakklandi hafa nafngreint tvo árásarmenn til viðbótar, annar þeirra hefur verið ákræður fyrir brot á hryðjuverkalöggjöf. Samy Amimour, 29 ára, tók þátt í fjöldamorðunum í Bataclan tónleikasalnum þar sem 89 létu lífið.
Talið er að Salah Abdeslam hafi verið handtekinn í Brussel fyrir skömmu. Hann er einn þriggja bræðra sem sagðir eru hafa komið að árásunum.
Hinn maðurinn var með sýrlenskt vegabréf á sér og samkvæmt því heitir hann Ahmad Al Mohammad. Enn á eftir að sannreyna hvort það sé hans rétta nafn en það þykir ólíklegt.
Samy Amimour fór að sögn fjölskyldu hans til Sýrlands fyrir tveimur árum eftir að hafa snúist til öfgaskoðana í Frakklandi. Þetta kom fram í viðtali við AFP fréttastofuna fyrir árásirnar á föstudagskvöldið. Amimour, sem er fæddur í París, var ákærður af frönskum yfirvöldum eftir að hafa gert árangurslausa tilraun til þess að fara til Jemen. Saksóknarar telja að hann sé einn þriggja sem gerðu árás á Bataclan.
AP fréttastofan hefur heimildir fyrir því að Belginn Abdelhamid Abaaoud sé höfuðpaurinn á bak við hryðjuverkin í París sem kostuðu 129 manns lífið. Abaaoud tengist fleiri árásum en að sögn innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, hefur tekist að hindra sex hryðjuverkaárásir frá því í vor í Frakklandi. Þar á meðal árásir á lestar og kirkjur og er Abaaoud tengdur einhverjum þeirra. Þar á meðal árásina sem komið var í veg fyrir í ágúst um borð í hraðlest.
Að sögn Cazeneuve eru 23 í haldi lögreglu í Frakklandi í tengslum við árásirnar á föstudagskvöldið. Alls hefur verið leitað á 168 stöðum víðsvegar um Frakkland en um er að ræða staði sem tengjast hryðjuverkasamtökum og glæpahópum. Yfir þrjátíu vopn hafa verið haldlögð í aðgerðunum.
Franska dagblaðið Liberation segir að tengsl séu á milli Abaaoud og Sid Ahmed Ghlam, sem er franskur námsmaður sem er ákærður fyrir morð, morðtilraun og hryðjuverk.
Þetta byggir á skjölum sem fundust á heimili Ghlam og í tölvu hans og síma. Þar kemur fram að Ghlam var í sambandi við frönskumælandi mann í Sýrlandi sem fyrirskipaði honum að gera árás á kirkju.
Tyrknesk yfirvöld segja í samtali við Guardian að þau hafi í tvígang haft samband við frönsk yfirvöld þar sem varað var við einum árásarmanninum, Omar Ismail Mostefai, en hann er einn þeirra sem framdi sjálfsvíg við þjóðarleikvanginn í París. Engin fyrirspurn hafi borist frá frönskum yfirvöldum fyrr en eftir árásirnar.
Talið er að Abaaoud sé í Sýrlandi en einn félagi hans, Ibrahim Abdeslam, er talinn einn þeirra sem framdi sjálfsvígsárás á Comptoir Voltaire kaffihúsinu.
Samkvæmt frétt RTL útvarpsstöðvarinnar er Abaaoud, 27 ára, einn af virkustu böðlum Ríkis íslams í Sýrlandi.
Belgíska lögreglan er með viðamiklar aðgerðir í úthverfi Brussel, Molenbeek, en einhverjir þeirra sem tóku þátt í hryðjuverkunum í París bjuggu þar. Vopnuð lögregla lokar hluta hverfisins og er að brjótast inn í hús í hverfinu, samkvæmt fréttum belgískra fjölmiðla.
Salah Abdeslam, sem er eftirlýstur vegna árásanna í París, var handtekinn í morgun í Molenbeek hverfinu samkvæmt frétt RTL en það hefur ekki fengist staðfest. Sú frétt var síðar dregin til baka. Bróðir hans er einn þeirra sem framdi sjálfsvígsárás í París.
Abaaoud kemur úr Molenbeek hverfinu og segir Charlie Winter, sérfræðingur í málefnum Ríkis íslams, í samtali við Independent að miðað við feril Abaaouds þá er hann fullfær um að skipuleggja fjöldamorðin í París. „Henn er nákvæmlega sú manngerð sem þú getur átt von á að skippuleggi eitthvað eins og þetta,“ segir Winter.
Ibrahim Abdeslam og Abaaoud eru báðir úr Molenbeek hverfinu og hafa saman tengst fjölmörgum glæpamálum á árunum áður. Til að mynda er talið að Abaaoud tengist hryðjuverkahópi í bænum Verviers en lögreglan skaut tvo til bana þar í janúar í kjölfar árásanna í París í byrjun janúar. Þeir félagar skipulögðu dráp á belgískum lögreglumönnum nokkrum dögum eftir árásina á Charlie Hebdo.
Abdelhamid Abaaoud, sem var nafngreindur í morgun, er sonur verslunareiganda frá Marokkó en heimildir herma að hann hafi gengið til liðs við Ríki íslams í Sýrlandi árið 2013 og hafi komið fram í myndskeiði þar sem hann sést keyra pallbíl hlaðinn líkum fólks sem hafi verið misþyrmt og átti að varpa í fjöldagröf. Belgískir fjölmiðlar segja að hann hafi fengið þrettán ára gamlan bróður sinn, Younes Abaaoud, til liðs við samtökin en hann er einn yngsti stríðsmaður samtakanna í Sýrlandi.