Sprengja grandaði flugvélinni

AFP

Yfirmaður leyniþjónustu Rússlands segir að um hryðjuverk hafi verið að ræða þegar rússnesk þota fórst yfir Sínaí-skaga í Egyptalandi í síðasta mánuði. Allir um borð, 224 manns, fórust. 

„Leifar af útlendu sprengiefni fundust í braki Airbus vélarinnar,“ segir  Alexander Bortnikov yfirmaður leyniþjónustunnar. 

Hann hefur eftir sérfræðingum að þotan hafi splundrast á flugi þegar sprengjan sprakk en kraftur hennar jafnaðist á við eitt kíló af TNT.

Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, heitir því að að hafa uppi á og refsa þeim sem bera ábyrgð á hryðjuverkaárásinni. Ríki íslam hefur lýst sökinni á tilræðinu á hendur sér. Flestir þeirra sem létust voru Rússar á heimleið frá orlofsstaðnum Sharm el-Sheikh.

Pútín segir að loftárásum verði ekki aðeins haldið áfram í Sýrlandi heldur verði þær stórauknar svo þessir glæpamenn skilji að hefndin er óhjákvæmileg.

 Að sögn Pútíns verður leitað að þeim hvar sem þeir muni leynast. „Við munum finna þá hvar sem þeir eru í heiminum og refsa þeim,“ segir Pútín sem segir árásina einn blóðugasta glæp sem framinn hefur verið gagnvart rússnesku þjóðinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert