Rússneskir miðlar hafa sagt frá því í dag að sprengjan sem grandaði rússneskri farþegaþotu yfir Sínaí-skaga í Egyptalandi í október hafi líklega verið komið fyrir af egypskum flugvallarstarfsmanni.
Stjórnvöld í Kremlin staðfestu í gær að vélin hefði farist vegna sprengingar og hétu því að hafa uppi á hinum seku. Fram að því höfðu þau gefið lítið fyrir kenningar þess efnis að um hryðjuverk væri að ræða.
Allir um borð, 224 talsins, létu lífið.
Í dag birti tímarit samtakanna Ríkis íslam mynd sem sögð er vera af sprengjunni. Af myndinni að dæma var hún dulbúin sem Schweppes-dós.
Samkvæmt Guardian sagði rússneska dagblaðið Kommersant frá því í dag að rannsakendur á vegum leyniþjónustunnar FSB hefðu fundið eins metra gat á hluta úr búk vélarinnar, sem gæfi til kynna að sprenging hefði átt sér stað í vélinni.
Þá hefur blaðið eftir heimildarmanni tengdum rannsókninni að sprengingin hafi átt sér stað í afturhluta farþegarýmisins. Sagði hann að sprengjan hafi líklega verið falin undir gluggasæti.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði í dag að sprengingin jafngilti árás á rússneska ríkið.