Lögreglan hefur handtekið lækni og hjúkrunarfræðing í norðurhluta Indlands vegna gruns um að þau hafi afhöfðað barn í erfiðri fæðingu. Þau eru talin hafa beitt of miklu afli við að aðstoða barnið við að komast í heiminn. Varað er við lýsingum af fæðingunni sem fara hér á eftir.
Kvensjúkdómalæknirinn Tayyaba Iqbal og hjúkrunarfræðingurinn notuðu töng og snæri sem þau bundu um fætur barnsins í þeirri viðleitni að draga það út úr móðurinni. Við það slitnaði höfuð barnsins af búk þess.
Lögreglustjórinn Mohammad Tariq segir að fólkið hafi verið handtekið en parið var á flótta í tvo daga áður en lögreglan náði því. Fólkið verður ákært fyrir manndráp af gáleysi.
„Þau lögðu á flótta eftir að barnið dó. Við erum að rannsaka málið með aðstoð lækna,“ sagði Tariq við AFP-fréttastofuna.
Í frétt AFP er haft eftir heilbrigðisstarfsmanni á sjúkrahúsinu að barnið hafi verið andvana og að eftir að læknirinn komst að því hafi hann reynt að ná því út með aðferðum sem urðu til þess að höfuð þess slitnaði af.
Móðirin, sem er 35 ára og var að eignast sitt fyrsta barn, þurfti að gangast undir aðgerð til að ná höfði barnsins úr líkama hennar.
Slys sem þessi eru mjög sjaldgæf.