Erfðabreyttur lax á borð Bandaríkjamanna

Þessi lax er íslenskur og tengist fréttinni ekki beint.
Þessi lax er íslenskur og tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Matvæla- og lyfjaeftirlitsstofnun Bandaríkjanna hefur komist að þeirri niðustöðu að ákveðin tegund erfðabreytts lax sé örugg til átu. Um er að ræða fyrstu dýraafurðina sem hefur hefur verið breytt með erfðaefni úr annarri tegund sem ratar á matarborð Bandaríkjamanna.

Deilt hefur verið um málið í mörg ár en það snýst um atlantshafslax sem hefur verið sprautaður með erðfaefni úr kóngalax úr Kyrrahafi. Tilgangur erfðabreytingarinnar er að hraða vexti fisksins.

Afraksturinn hefur hlotið heitið AquAdvantage Salmon og er framleiddur af AquaBounty Technologies í Massachusetts. Fiskurinn getur náð stærð fullvaxta dýrs á 16-18 mánuðum, en það tekur atlandshafslaxinn venjulega 30 mánuði að ná fullri stærð.

Samkvæmt matvæla- og lyfjaeftirlitinu hefur framleiðandinn uppfyllt allar kröfur, meðal annars þá að fólki sé óhætt að leggja sér fiskinn til munns. Þá segir það engan mun að finna á næringargildum AquAdvantage Salmon og öðrum eldisfiski sem máli skiptir.

Framleiðandinn hefur fengið heimild til að ala fiskinn á landi, í tveimur eldisstöðvum í Kanada og Panama. Leyfi matvæla- og lyfjastofnunarinnar heimilar ekki ræktun fisksins í Bandaríkjunum.

Sum neytendasamtök hafa mótmælt ákvörðuninni. Segja þau fiskinn mögulega hættulegan heilsu manna og að hann gæti ógnað öðrum fisktegundum ef hann rataði út í náttúruna. Eftirlitið hefur hins vegar bent á að eldisfiskurinn sé ófrjór og geti því ekki fjölgað sér í náttúrunni.

Seljendur munu ekki þurfa að merkja fiskinn sem erfðabreyttan, þar sem hann er „efnislega“ óaðgreinanlegur frá atlandshafslaxinum sem finnst í náttúrunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert