Ráðherrar Evrópusambandsins samþykktu á fundi sínum í dag að herða landamæraeftirlit í kjölfar árásanna í París fyrir viku síðan. Innanríkis- og dómsmálaráðherrar ESB ríkjanna og annarra ríkja sem eiga aðild að Schengen-samstarfinu, samþykktu þetta á neyðarfundi í Brussel í morgun. Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, situr fundinn fyrir hönd Íslands.
Samkvæmt samkomulaginu verður eftirlit með öllum þeim sem eiga leið um ytri landamæri Schengen hert til muna.
Framkvæmdastjórn ESB leggur til að stofnuð verði sameiginleg leyniþjónusta ESB ríkjanna en 129 létust í árásunum í París á föstudagskvöldið.
Það að Abdelhamid Abaaoud, sem talið var að héldi til í Sýrlandi, hafi verið í París kvöldið sem árásin var gerð vekur upp spurningar um hvernig honum tókst að komast inn á Schengen-svæðið án vandkvæða þrátt fyrir að vera eftirlýstur hryðjuverkamaður sem var dæmdur í tuttugu ára fangelsi fyrir nokkrum mánuðum fyrir hryðjuverkastarfsemi.
„Ég tel að það sé tímabært að stíga skref framávið og leggja grunninn að stofnun evrópskrar leyniþjónustu,“ segir yfirmaður innflytjendamála hjá ESB, Dimitris Avramopoulos. En innanríkisráðherra Þýskalands, Thomas de Maiziere, segist efast um að ríkin 28 séu reiðubúin til þess að afsala sér þjóðarsjálfstæði á þessu sviði.
„Við ættum að einbeita okkur að því að auka upplýsingaflæði milli núverandi stofnana,“ segir hann.
Tengsl Abaaouds við Sýrland og það að sýrlenskt vegabréf fannst við hlið eins árásarmannanna á föstudagskvöldið hefur einnig ýtt undir ótta um að vígamenn laumi sér til vesturlanda í skjóli flóttamanna.
Meirihluti þingmanna á bandaríska þinginu, þar sem repúblikanar eru í meirihluta, samþykktu að stöðva komu sýrlenskra og íraskra flóttamanna til Bandaríkjanna þar til aukið eftirlit hefur verið tekið upp á landamærum Bandaríkjanna.
Í Rússlandi hefur verið boðað til neyðarfunda í báðum deildum þingsins í dag í kjölfar þess að upplýst var um að rússneska farþegaþotan sem fórst yfir Sínaí-skaga hafi verið sprengd upp af hryðjuverkamönnum.
Sameinuðu þjóðirnar vöru við því í dag að hertar reglur ríkja sem eru á flóttaleið fólks á Balkanskaganum geti skapað óbærilegt ástand þar sem margir flóttamenn eiga ekki möguleika á húsaskjóli.
Hundruð þúsunda flótta- og förufólks, flestir að flýja stríðsástand, hafa farið yfir Miðjarðarhafið í ár og flestir þeirra komið að landi í Grikklandi. Þaðan hefur fólk flúið yfir Balkanskagann á leið sinni til annarra ríkja í Evrópu. Fyrr í vikunni greindu ríkin þar frá því að þau væru að herða þær reglur sem gilda um komu þeirra flóttamanna sem væru að flýja slæmt efnahagsástand og aðeins þeir sem væru að flýja stríð fengju að ferðast yfir landamæri þeirra.