Snérist Abdeslam hugur?

Á miða sem hangir uppi á útidyrahurð írskrar kráar í …
Á miða sem hangir uppi á útidyrahurð írskrar kráar í Brussel stendur að lokað hafi verið kl. 18 vegna tilmæla lögreglu. AFP

Götur miðborgar Brussel voru nær auðar í gærkvöldi er veitingastaðir og öldurhús lokuðu snemma vegna hættuástandsins sem lýst hefur verið yfir í borginni. Hermenn voru víða við eftirlit en leit stendur yfir að Salah Abdeslam, einum árásarmanna í París, sem er talinn vopnaður sjálfsmorðssprengjubelti.

Samkvæmt BBC er talið að Abdeslam sé í Brussel en freisti þess að komast til Sýrlands.

Í gær sagði Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, að nákvæmar upplýsingar bentu til þess að nokkrir einstaklingar vopnaðir byssum og sprengjum gætu látið til skarar skríða, mögulega á mörgum stöðum í einu.

Að sögn eins mannanna sem óku honum til Belgíu frá París síðustu helgi var Abdeslam klæddur stórum jakka og kann að hafa verið undir það búinn að sprengja sig í loft upp.

Lögmaður mannsins, Carine Couquelet, segir þetta vekja spurningar, m.a. hvort Abdeslam hafi ætlað að sprengja sig í loft upp í París en snúist hugur. Vinir Abdeslam hafa sagt við ABC News í Bandaríkjunum að hann fari huldu höfði í París og sé í örvæntingu að reyna að komast til Sýrlands.

Vinirnir segja enn fremur að hann sé á milli steins og sleggju, þ.e. evrópska yfirvalda og liðsmanna Ríkis íslam, sem fylgjast með honum og eru óánægðir með að hann hafi ekki sprengt sig í loft upp.

Yfirvöld í Belgíu óttast að árás á borð við þá …
Yfirvöld í Belgíu óttast að árás á borð við þá í París verði gerð í Brussel. AFP

Íbúum Brussel var í gær sagt að forðast fjölmenni og þá var neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar lokað og sömuleiðis verslanamiðstöðvum, kvikmyndahúsum og veitingastöðum.

Bandaríska sendiráðið beindi þeim tilmælum til bandarískra ríkisborgara að halda sig inni við og evrópskum hermönnum var bannað að ferðast til borgarinnar í þrjá sólahringa.

Forsætisráðherrann sagði að öryggisástandið yrði endurmetið seinna í dag.

Belgískur maður af Morokkóskum uppruna hefur verið handtekinn í Tyrklandi ásamt tveimur öðrum en hann er grunaður um að hafa verið í sambandi við árásarmennina í París. Hann kom til Antalya 14. nóvember sl. en svo virðist sem belgísk yfirvöld hafi ekki látið yfirvöld í Tyrklandi vita af honum.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt að herða aðgerðir gegn Ríki íslam í ljósi árásanna í París 13. nóvember sl.

Uppfært kl. 09.03:

Innanríkisráðherra Belgíu, Jan Jambon, segir að yfirvöld leiti ekki aðeins Abdeslam heldur nokkurra einstaklinga. Þess vegna hafi verið gripið til svo viðamikilla úrræða. Hann segir stjórnvöld fylgjast náið með þróun mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka