Segir óvininn verðskulda vatnspyntingar

Trump dregur ekkert undan.
Trump dregur ekkert undan. AFP

Fari svo að viðskiptajöfurinn Donald Trump flytur í Hvíta húsið í janúar 2017 mega óvinir Bandaríkjanna undirbúa sig undir það að verða beittir vatnspyntingum ef þeir eru fangaðir. Þetta mátti ráða af ummælum Trump á kosningafundi í Columbus í Ohio í gær, þar sem hann sagðist myndu heimila fleira en bara svokallaða „waterboarding“ pyntingaaðferð.

„Hún virkar,“ sagði forsetaframbjóðandinn um aðferðina. „Og ef hún virkar ekki, þá verðskulda þeir hana samt fyrir það sem þeir hafa gert okkur.“

Það er kallað waterboarding þegar einstaklingur er pyntaður þannig að hermt er eftir drukknun. Höfuð viðkomandi er ýmist haldið undir vatni eða vatn látið renna viðstöðulaust á öndunarfæri hans. Aðferðin var notuð við yfirheyrslur en bönnuð árið 2006.

Á kosningafundinum endurtók Trump einnig staðhæfingar sínar um að múslimar í New Jersey hefðu fagnað hryðjuverkaárásunum 11. september 2001 og sagðist hafa „séð það í sjónvarpinu og lesið um það á internetinu“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert