Forseti Rússlands, Vladimir Pútín, segist enn bíða eftir afsökunarbeiðni frá tyrkneskum yfirvöldum eftir að rússnesk herþota var skotin niður við landamæri Tyrklands og Sýrlands á þriðjudaginn. Pútín hefur sakað leiðtoga Tyrklands um að eyðileggja samband ríkjanna.
Tyrkir hafa birt upptökur sem eiga að sýna fram á að tyrkneskir hermenn hafi sent frá sér viðvörun á þriðjudag þegar rússneska þotan nálgaðist landamæri Tyrklands. Að sögn Rússa var þotan skotin niður án viðvörunar en hún var að varpa sprengjum yfir Sýrlandi. Þotan hrapaði í sýrlensku fjalllendi eftir að hún varð fyrir flugskeyti.
Mikil spenna hefur myndast á milli Tyrkja og Rússa í kjölfar atviksins. Bandaríkin, Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið hafa hvatt til stillingar.
Bæði Rússar og Tyrkir taka þátt í alþjóðlegum viðræðum vegna ástandsins í Sýrlandi og starfsemi Ríkis íslams.
Francois Hollande, forseti Frakklands, fer til Moskvu í dag til þess að ræða baráttuna gegn Ríki íslams, en 130 létu lífið í árásum samtakanna í París 13. nóvember.
Pútín lét reiði sína gagnvart Tyrkjum aftur í ljós í dag, og kallaði það að fá „rýting í bakið“ að þotan hefði verið skotin niður. Sagði hann Rússa hafa litið á Tyrki sem „bandamenn og samstarfsmenn í baráttunni gegn hryðjuverkum“.
Hann sagði jafnframt að Rússar hefðu aldrei fengið „skýra afsökunarbeiðni“ frá Tyrklandi eða loforð um að „glæpamönnunum“ sem skutu þotuna niður yrði refsað.
„Maður fær það á tilfinninguna að tyrknesk stjórnvöld séu viljandi að reyna að eyðileggja samband ríkjanna,“ sagði hann.
Á þriðjudag lýstu Rússar því yfir að þeir myndu setja strangari reglur þegar kemur að innflutningi matvæla frá Tyrklandi. Rússneskur embættismaður sagði að 15% tyrkneskra matvæla hefðu ekki staðist rússneskra staðla.
Rússar hafa einnig hætt hersamskiptum við Tyrki og lýst því yfir að nú muni orrustuþotur ávallt fylgja sprengjuþotum Rússa í Sýrlandi.