Þótt rússneskir ráðamenn hafi útilokað hernaðarlegar hefndaraðgerðir gegn Tyrkjum eftir að rússnesk orrustuþota var skotin niður af Tyrkjum við landamæri Sýrlands fyrr í vikunni er ekki þar með sagt að þeir muni ekki aðhafast neitt. Reyndar hafa ráðamenn í Rússlandi bæði hótað og ýtt á eftir allskonar aðgerðum sem gætu kostað efnahag Tyrkja talsverðar fjárhæðir.
Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, gaf í dag ráðherrum ríkisstjórnarinnar tvo daga til að setja fram viðbragðaráætlun á efnahags- og mannúðarsviðinu sem á að beinast gegn Tyrklandi. Sagði hann að aðgerðir Tyrkja myndu hafa áhrif á efnahagsleg samvinnuverkefni þjóðanna, hindra fjármála- og vöruflutninga milli landanna og setja tollamál landanna í uppnám.
Þá hefur Vladimir Putin, forseti Rússlands, sagt að aðgerðirnar gætu einnig beinst að samgöngum og ferðamennsku, en Rússar eru næst fjölmennasti ferðamannahópurinn sem kemur til Tyrklands. Undanfarin ár hefur mikil uppbygging átt sér stað í Tyrklandi vegna aukins ferðamannastraums og gæti samdráttur á Rússlandsmarkaði haft mikil áhrif. Meðal annars sagði utanríkisráðherra Rússlands í dag að ferðamenn ættu að koma aftur heim frá Tyrklandi vegna „hryðjuverkaógnar“ í landinu.
Þá hafa rússneskir ráðamenn hert eftirlit með innflutningi á tyrkneskum matvörum vegna meintra brota á öryggisreglum.
Efnahagsráðherra Rússlands, Alexei Ulyukayev, hefur heldur ekki lokað á þann möguleika að staðan í samskiptum ríkjanna muni hafa áhrif á tvö risaverkefni sem ríkin vinna saman að; Akkuyu kjarnorkuverið í Tyrklandi og Turk Stream gasleiðsluna.