Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur veitt Francois Hollande Frakklandsforseta samþykki sitt fyrir auknu samstarfi í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams. Forsetarnir ræddust við á fundi sem haldinn var í Kreml.
Fréttaveita AFP hefur það eftir Pútín að samþykkt hefði verið að auka mjög flæði upplýsinga á milli ríkjanna þegar kemur að baráttunni gegn hryðjuverkum, samhæfa betur hernaðaraðgerðir og leggja aukna áherslu á skilvirkari aðgerðir gegn hryðjuverkum.
Francois Hollande, forseti Frakklands, sagði eftir fundinn í Kreml Bashar al-Assad Sýrlandsforseta ekki eiga hlutverk í framtíð Sýrlands, en sá hefur til þessa sótt sinn helsta stuðning til Rússlands.
Eftir að búið var að bjarga rússneska flugmanninum sem skotinn var niður við landamæri Sýrlands og Tyrklands fyrr í þessari viku hófust miklar hernaðaraðgerðir á svæðinu.
„Um leið og flugmaður okkar var óhultur gerðu rússneskar sprengjuflugvélar og stórskotaliðssveitir sýrlenska hersins gríðarlegar árásir á það svæði og stóðu þær yfir í talsverðan tíma,“ hefur fréttaveita AFP eftir háttsettum rússneskum yfirmanni í hernum.
Bætti hann því við að uppreisnarhópar á svæðinu hafi verið þurrkaðir út.