Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, vill hitta forseta Rússlands, Vladímir Pútín, þegar loftlagsráðstefnan hefst í París á mánudag. Pútín bíður eftir afsökunarbeiðni frá tyrkneskum yfirvöldum eftir að rússnesk herþota var skotin niður við landamæri Tyrklands og Sýrlands á þriðjudaginn.
Yfirvöld í Tyrklandi segja að rússneska vélin hafi farið inn í lofthelgi Tyrklands og flugmennirnir tveir hafi hunsað ítrekaðar viðvaranir frá flugumferðarstjórn landsins. Yfirvöld í Rússlandi segja aftur á móti að vélin hafi ekki farið yfir mörkin og saka tyrknesk stjórnvöld um skipulagða ögrun.
Erdogan sagði í samtali við fjölmiðla í dag að um eðlilegt viðbragð við rof á lofthelgi hefði verið að ræða og ekki hefði verið ákveðið fyrirfram að granda vélinni. Sagði hann gagnrýni Pútíns vegna atvikisins óásættanlega. „Rússlandi ber skylda til að færa sönnur fyrir ásökunum sínum,“ sagði hann.
Að sögn Erdogan er þetta ekki í fyrsta skipti sem rússneskar vélar fara inn fyrir lofthelgi Tyrkja í leyfisleysi og hann hafi varað Pútín við eftir tvö atvik í október.