Skotárás í Bandaríkjunum

Mynd úr safni
Mynd úr safni AFP

Skotárás átti sér stað í kvöld fyrir utan heilsugæslustöð í Colorado Springs, en heilsugæslan er hvað þekktust fyrir að sjá um fóstureyðingar og er undir merkjum Planned Parenthood. Lögreglan hefur gefið út að svæðið í kringum heilsugæslustöðina sé ekki öruggt, en skotmannsins er leitað.

Fjórir lögreglumenn eru sagðir særðir og einhver fjöldi almennra borgara.

Á vef New York Times kemur fram að lögreglumaður hafi sagt að skotmaðurinn hafi skotið út um bílglugga og AFP fréttastofan segir að nokkrir séu meiddir eftir árásina. 

Enn er margt óljóst í tengslum við árásina og verður fréttin uppfærð eftir því sem upplýsingar berast.

Uppfært kl 20:33: Lögreglan á staðnum segir að þrír lögreglumenn séu særðir og að einhverjir óbreyttir borgarar einnig.

Uppfært kl 20:40: AP fréttastofan hefur eftir lögreglumanni í Colorado Springs að lögreglan haldi nú aftur af skotmanninum, en að svæðið sé áfram óöruggt. 

Planned Parenthood samtökin reka tæplega 900 heilsugæslustöðvarnar víðsvegar um Bandaríkin, en þjónusta þeirra snýr aðallega að æxlunar- og kynheilbrigði. Þekktust eru þau fyrir að bjóða upp á fóstureyðingar, en 325 þúsund slíkar voru framkvæmdar árið 2013. Til viðbótar voru heimsóknir vegna annarra mála um 10 milljónir.

Uppfært kl 20:58: Aðeins mánuður er síðan byssumaður skaut þrjá til bana í Colorado Springs, áður en hann var skotinn sjálfur af lögreglu. Á vef Colorado Springs Gazette kemur fram að lögreglan viti ekki hvort tenging sé á milli skotárásinnar og heilsugæslunnar. Tilkynningin hafi aftur á móti komið þaðan. Lögreglan veit ekki fjölda skotmanna, ef þeir eru fleiri en einn eða fjölda þeirra sem urðu fyrir árásinni. Er hún núna að flytja á brott fólk sem var í búðum á svæðinu en íbúar eru hvattir til að vera innandyra. 

Uppfært kl 21:17: Lögreglan í Colorado Springs segir á Twitter að enn sé verið að skjóta á lögreglumenn á vettvangi.

Uppfært kl 22:29: Lögreglan í Colorado Springs hvetur fólk til þess að hringja í sérstakt símanúmer til þess að hægt sé að koma þeim skilaboðum á framfæri við fjölskyldu viðkomandi að hann sé óhultur. Er þetta gert vegna mikils álags á síma neyðarlínunnar.

Uppfært kl 22:35: The Guardian greinir nú frá því að fjórir lögreglumenn séu særðir eftir skotárásina og nokkrir almennir borgarar. Fjöldi þeirra liggur ekki fyrir að svo stöddu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert