Byssumaðurinn sem hóf skotárás við heilsugæslu í Colorado Springs í Bandaríkjunum í gær skaut þrjá til bana og særði nokkra aðra í leiðinni. Lögregla kom fljótt á vettvang og króaði manninn af, en hann gafst ekki upp fyrr en eftir fimm tíma pattstöðu.
Frétt mbl.is: Skotárás í Bandaríkjunum
Árásin gerðist á svokölluðum Svarta föstudegi (e. Black Friday), en það er dagurinn eftir þakkargjörðahátíðina í Bandaríkjunum og helgast sá dagur alla jafna að miklu kaupæði þannig að verslunargötur og verslunarmiðstöðvar eru fullar af viðskiptavinum.
Meðal hinna látnu var einn lögreglumaður, en fimm aðrir lögreglumenn særðust. Tveir almennir borgarar létust í árásinni og fjórir særðust. Enginn hinna særðu er alvarlega slasaður.
Borgarstjóri Colorado Springs, John Suthers, þakkaði lögreglu fyrir að hafa náð að yfirbuga byssumanninn án þess að frekara blóðbað yrði. „Þetta er hræðilegur hræðilegur harmleikur,“ sagði hann við blaðamenn eftir að búið var að handtaka árásarmanninn.
Ekki er enn ljóst hvort árásin var gerð gegn heilsugæslustöðinni, en hún er hluti af Planned Parenthood stofnununm, en þjónusta þeirra snýr aðallega að æxlunar- og kynheilbrigði. Þekktust eru þau fyrir að bjóða upp á fóstureyðingar, en 325 þúsund slíkar voru framkvæmdar árið 2013. Til viðbótar voru heimsóknir vegna annarra mála um 10 milljónir.
Árásarmaðurinn hefur verið nafngreindur, en hann heitir Robert Lewis Dear og er frá Suður Karólínu. Samkvæmt upplýsingum Denver Post er hann 57 ára gamall.