Mótmælendur skildu eftir þúsundir para af skóm á torginu Place de la Republique í París í dag í táknrænum mótmælum fyrir setningu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem hefst í borginni á morgun.
Frönsk yfirvöld komu í veg fyrir tvenn mótmæli í borginni og báru fyrir sig öryggisástæður vegna hryðjuverkanna í París fyrr í mánuðinum.
Engu að síður fóru fram önnur mótmæli vegna ráðstefnunnar og þótt flestir mótmælenda hafi mótmælt á friðsælan hátt voru um 100 manns handteknir úr hópi andstæðinga kapítalisma sem lenti saman við lögreglu.
Þeir sem ekki vildu taka þátt í göngunum skildu eftir þúsundir para af skóm á Place de la Republique torginu, en meðal annars skildi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-Moon eftir skópar sem og Frans páfi sem sendi skópar.