„Þeir geta aldrei brotið mig niður“

Í meira en 40 ár hefur Albert Woodfox setið í …
Í meira en 40 ár hefur Albert Woodfox setið í einangrun í bandarísku fangelsi, lengur en nokkur annar fangi þar í landi. AFP

„Þeir geta beygt mig örlítið. Þeir geta valdið mér miklum sársauka. Þeir geta jafnvel tekið líf mitt. En þeir geta aldrei brotið mig niður,“ segir Albert Woodfox sem hefur setið í öryggisfangelsi í Louisiana í 43 ár, þar af í einangrun í 40 ár.

Fangelsið sem Woodfox er í er skammt frá fyrrverandi þrælaplantekrunni Angola. Woodfox er læstur inni í klefa sem 183x244 cm að stærð, 23 tíma á sólarhring, þar sem dagsbirta er nánast engin, segir í grein sem Amnesty International hefur tekið saman. Mál Alberts Woodfox er í brennidepli alþjóðlegs bréfamaraþons Amnesty International um þessar mundir.

Woodfox var dæmdur í fangelsi 1971 fyrir vopnað rán. Hann hóf afplánun í Angola og varð strax einn af meðlimum Svörtu hlébarðanna, samtaka sem létu mikið að sér kveða í réttindabaráttu blökkumanna á sjöunda og áttunda áratugnum, í fangelsinu.

Árið 1972 var hann dæmdur fyrir morð á fangaverði. Woodfox hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu. Engar áþreifanlegar sannanir tengja Woodfox við morðið og sakfelling hans byggðist einkum á vitnisburði samfanga hans sem hlaut náðun fyrir vikið. Woodfox heldur því fram að pólitískar ástæður liggi að baki sakfellingunni, þar sem hann var meðlimur í Svörtu hlébörðunum. 

Áratugalöng einangrunarvist og frelsissvipting hefur haft skelfileg áhrif á Woodfox. „Ég á ekki til þau orð sem tjáð geta þær andlegu, tilfinningalegu og líkamlegu pyndingar sem ég hef mátt þola í gegnum árin,“ segir í grein sem Amnesty International hefur tekið saman um mál hans. Þar segir að Sameinuðu þjóðirnar hafi lýst meðferðinni á Woodfox sem pyntingum.

Lögsóknin á hendur honum var svo meingölluð að þrisvar sinnum var sakfellingin  afturkölluð. Í júní árið 2015 fyrirskipaði dómari í Bandaríkjunum að Albert Woodfox skyldi tafarlaust leystur úr haldi en yfirvöld í Louisiana standa í vegi fyrir frelsi hans.

Alríkisáfrýjunardómstóll ógilti nýverið þessa dómsniðurstöðu og úrskurðaði að Louisiana gæti réttað yfir honum í þriðja skiptið og haldið honum þar til niðurstaða réttarhaldanna lægi fyrir.

Auk Woodfox voru þeir Herman Wallace og Robert King sakaðir um að hafa drepið hvítan fangavörð, Brent Miller. Þeir héldu alltaf fram sakleysi sínu og var King látinn laus úr fangelsi árið 2001. Wallace var síðan látinn laus í október 2013 en lést úr lifrarkrabbameini þremur dögum síðar.

Tveir dómarar við áfrýjunardómstólinn af þremur töldu að niðurstaða James Bradys héraðsdómara í júní hefði verið röng og því ætti ekki að láta Woodfox lausan úr haldi og að réttað yrði yfir honum enn einu sinni.

Enginn fangi í Bandaíkjunum hefur þurt að sitja jafnlengi í einangrun og Woodfox og segja verjendur hans að þeir séu gríðarlega ósáttir við niðurstöðu áfrýjunardómstólsins.

Jasmine Heiss hjá Amnesty International segir að Woodfoox sé áfram fastur í martröð og það sé orðið löngu tímabært að hann verði látinn laus.

Woodfox þjáist af hjartasjúkdómi, nýrnabilun og lifrarbólgu C, að sögn verjenda hans.

„Mál Alberts Woodfox er eitt tólf mála einstaklinga sem sætt hafa grófum mannréttindabrotum sem tekin verða upp á bréfamaraþoni Amnesty International í ár. Á þessum árlega viðburði í kringum aðventuna koma hundruð þúsunda einstaklinga, í rúmlega 150 löndum og landsvæðum, saman og setja nafn sitt á milljónir bréfa og korta til stjórnvalda sem brjóta mannréttindi og þrýsta á um umbætur. Margir senda einnig kveðjur til þolenda brotanna og veita þeim þannig styrk og vissu um að umheimurinn hafi ekki gleymt þeim,“ segir í tilkynningu frá Amnesty International.

Bréfamaraþonið

Haldið í einangrun í 40 ár

Albert Woodfox hefur setið inni í 43 ár - þar …
Albert Woodfox hefur setið inni í 43 ár - þar af rúm 40 ár í einangrun.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert