Banna ýmsar tyrkneskar vörur eftir áramót

Frá Rauða torginu í Moskvu. Hagfræðingar óttast nú að verðbólga …
Frá Rauða torginu í Moskvu. Hagfræðingar óttast nú að verðbólga í Rússlandi muni hækka enn frekar strax eftir áramót. AFP

Viðskiptabann Rússa á ákveðnar tyrkneskar matvörur hefst í janúar. Rússnesk stjórnvöld tilkynntu það í dag en bannið var ákveðið eftir að Tyrkir skutu niður rússneska herþotu í Sýrlandi í síðustu viku. 

Innflutningur á sautján tyrkneskum matvörum, m.a. tómötum, lauk, appelsínum, perum, ferskjum, salti og kalkúni verður bannaður um áramótin. Bannið nær þó ekki til innflutnings á öllum tyrkneskum vörum, þar á meðal sítrónum. Vörur fluttar inn til einkanotkunar frá Tyrklandi verða enn leyfðar.

Rússar hafa einnig stöðvað sölu pakkaferða til Tyrklands og leiguflugferðir milli landanna tveggja. 

Íbúar Rússlands óttast nú að með þessu viðskiptabanni muni verð á matvöru hækka enn frekar í landinu en það hefur hækkað gífurlega síðan að Rússar settu viðskiptabann á ýmsar vestrænar vörur á síðasta ári.

Hagfræðingar við rússneska bankann Alfa sögðu í gær að viðskiptabann á tyrkneska matvöru gæti aukið verðbólgu í landinu um 1,5% en hún er nú rúmlega 15%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert