Tyrkir hafa skorað á Rússa að færa fram sannanir fyrir ásökunum þess efnis að rússnesk orrustuþota hafi verið skotin niður yfir Tyrklanditil að vernda olíuviðskipti Tyrkja og Ríkis íslams (IS).
„Setji þú fram ásakanir ættirðu að færa sönnur á þær,“ sagði Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti. Með því svaraði hann ásökunum Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta sem sagði það hafa verið „hrapalleg mistök“ að skjóta niður þotuna í síðustu viku.
Tyrknesk stjórnvöld hafa hafnað því að biðja Rússa afsökunar en annar flugmanna Su-24 sprengjuþotunnar beið bana í atvikinu, sem átti sér stað yfir landamærum Tyrklands og Sýrlands 24. nóvember sl. Þá beið rússneskur sjóliði bana er flugmanninum sem komst lífs var bjargað.
Tyrkir hafa haldið því fram að rússneska þotan hafi rofið lofthelgi Tyrklands en því vísa Rússar á bug. Bandaríska utanríkisráðuneytið segir að tyrknesk og bandarísk gögn bendi til að þotan hafi í raun rofið lofthelgina.
Tyrkir hafa harðneitað því að eiga í viðskiptum við Ríki íslams og segjast taka þátt í loftárásum bandamanna gegn samtökunum.