Grímuklæddir með árásarriffla

Lögreglumenn á vettvangi
Lögreglumenn á vettvangi AFP

Lögregla í San Bernardino í Kaliforníu leitar nú þriggja manna sem taldir eru tengjast skotárás í borginni. Lögreglan í borginni segir að 14 hafi látist í árásinni og jafn margir hafi særst.

Fyrri frétt mbl.is: Allt að tólf látnir í Kaliforníu

Að sögn vitna voru mennirnir klæddir í feluliti, með lambhúshettur og AK-47 riffla. Þeir yfirgáfu vettvang árásarinnar í svörtum jeppa og samkvæmt óstaðfestum heimildum er hann af gerðinni Yukon.

Lögreglan segir að byssumennirnir hafi hafið skothríð í húsnæði In­land Reg­i­onal Center í borginni, sem er þjón­ustumiðstöð fyrir fatlað fólk. Ekki er vitað hvers vegna ráðist var á þennan stað og þá hefur ekkert verið gefið upp um hvort þetta hafi verið hryðjuverk.

 Á Face­booksíðu In­land Reg­i­onal Center kem­ur fram að 670 starfi fyr­ir fyr­ir­tækið í San Bern­ar­dino og þjónusti rúm­lega 30.200 manns á svæðinu. 

Fjölmennt lið lögreglumanna, sérsveitamanna og fulltrúa bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) er á staðnum. Sprengjuleitarsveit fann grunnsamlegan pakka  á annarri hæð hússins og mun sprengjuvélmenni rannsaka innihald hans.

Samkvæmt frétt Washington Post er þetta 355 fjöldaskotárásin á árinu í Bandaríkjunum. Dagurinn í dag er 336 dagur ársins. Fjöldaskotárásir eiga við þegar fórnarlömbin eru fjögur eða fleiri. Aðeins eru fimm dagar síðan að þrír létu lífið og níu særðust í skotárás á heilsugæslustöð Planned Parenthood í Colorado.

Hér má sjá yfirlit Washington Post yfir fjöldaskotárásir á árinu.
Hér má sjá yfirlit Washington Post yfir fjöldaskotárásir á árinu.

Lögregla hefur beðið almenning um að halda sig frá vettvangi og einnig beðið fjölmiðla um að yfirgefa svæðið.

„Við vitum ekki hverjir þessir byssumenn eru,“ sagði lögreglufulltrúinn Vicki Cervante. „Þeir eru vopnaðir og mögulega klæddir skotheldum vestum. Þetta er ekki öruggt svæði, þetta er mjög hættulegt svæði. Því færri á staðnum því betra.“

Að sögn vitna eru enn fjölmargir inni í húsinu sem hafa læst sig inni á skrifstofum sínum eftir að skotárásin hófst.

Margir opinberir staðir í borginni hafa nú verið rýmdir. Í frétt CNN kemur fram að hluti byggingarinnar hafi verið leigð út í dag vegna jólaboðs starfsmanna sýslunnar. Ekki liggur fyrir hvort að árásin hafi beinst að þeim.

Fjölmargir voru látnir yfirgefa bygginguna og hús í nágrenninu.
Fjölmargir voru látnir yfirgefa bygginguna og hús í nágrenninu. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert