Mátti vita að bani myndi hljótast af

Oscar Pistorius á yfir höfði sér langan fangelsisdóm eftir að hæstiréttur Suður-Afríku fann hann sekan um morð. Í undirrétti var Pistorius dæmdur fyrir manndráp af gáleysi fyrir að hafa orðið kærustu sinni, Reevu Steenkamp, að bana en málinu var áfrýjað.

Þegar dómur var kveðinn upp í hæstarétti í morgun sagði dómarinn að vitnisburður íþróttakappans hefði verið ósannur. Þá fordæmdi hann hinn dóm undirréttar.

Pistorius, sem hefur stundum verið kallaður „Blade Runner“ vegna hinna einkennandi gervilima sem hann notar við íþróttaiðkun, var sleppt í október eftir að hafa setið inni í ár. Síðan hefur hann verið í stofufangelsi á heimili frænda síns í Pretoriu og sinnt samfélagsþjónustu samkvæmt úrskurði undirréttar.

Hann var ekki viðstaddur dómsuppkvaðningu í dag.

Lágmarksrefsing 15 ára fangelsi

Það var á Valentínusardag árið 2013 sem Pistorius varð Steenkamp, fyrirsætu og laganema, að bana en við réttarhöld hélt hann því fram að þegar hann skaut í gegnum baðherbergishurðina á heimili sínu, hefði hann staðið í þeirri trú að hann væri að skjóta á innbrotsþjóf.

Dómarinn Eric Leach sagði í morgun að Pistorius hefði gerst sekur um morð, enda hefði hann haft glæpsamlegt athæfi í huga þegar hann skaut. „Það er óhugsandi að skynsamur einstaklingur hefði talið að hann hefði rétt á því að skjóta á þessa  manneskju með öflugu skotvopni,“ sagði hann.

Í dómnum er gengið út frá því að Pistorius hefði mátt gera sér grein fyrir því að með aðgerðum sínum myndi hann verða viðkomandi að bana. Þá sagði dómarinn að það væri málinu óviðkomandi hver Pistorius hefði talið að væri bakvið hurðina.

Hæstiréttur hefur nú vísað málinu aftur til undirréttar, þar sem ákvörðun verður tekin um refsingu. Lágmarksrefsing fyrir morð er 15 ára fangelsi, en Pistorius gæti fengið reynslulausn fyrr.

Ákæruvaldið hefur staðfest að Pistorius, 29 ára, verði áfram í stofufangelsi á heimili frænda síns þar til refsing liggur fyrir. „Ég er sáttur með allt,“ sagði Barry Steenkamp, faðir Reevu, í dag en móðir hennar var viðstödd þegar dómur var kveðinn upp.

June Steenkamp var viðstödd þegar dómur var kveðinn upp í …
June Steenkamp var viðstödd þegar dómur var kveðinn upp í morgun. AFP

Dómarinn dæmdi vitlaust

Eitt þeirra meginatriða sem hæstiréttur skoðaði var túlkun dómarans í undirrétti, Thokozile Masipa, á hugtakinu „dolus eventualis“ þ.e. meðvitund um líklegar afleiðingar ákveðinna gjörða. Það var á grundvelli þeirrar túlkunar sem hún dæmdi Pistorius fyrir manndráp af gáleysi.

William Booth, lögmaður í Höfðaborg, segir að dómur hæstaréttar hafi ekki komið á óvart; Masipa hefði einfaldlega komist að rangri niðurstöðu. „Fjögur skot inn á lítið salerni þar sem þú veist að það er einhver hinum megin við hurðina - sá sem skýtur veit að hann mun hitta hina manneskjuna,“ sagði hann í samtali við AFP.

Booth sagðist telja að Pistorius yrði gert að sæta fangelsi í um 10 ár.

Mál Pistorius, heimsþekktrar íþróttahetju, vakti gríðarmikla athygli á sínum tíma. Í réttarsal grét hann og kastaði upp, og sagðist hafa verið gripinn skelfingu þegar hann taldi að innbrotsþjófur ógnaði sér og Steenkamp.

Hann greip byssuna og stökk af stað án gervilima.

„Áður en ég vissi hafði ég skotið fjórum skotum að hurðinni,“ sagði Pistorius og bætti við að hann hefði síðan þust aftur að rúminu í svefnherberginu þar sem hann bjóst við að finna Steenkamp.

Pistorius var á hápunkti ferils síns þegar hann myrti kærustu sína og hefur í kjölfarið séð á eftir íþróttaferlinum, gróðavænlegum samningum og stöðu sinni sem fyrirmynd fatlaðra.

Pistorius var ekki viðstaddur en hann á nú yfir höfði …
Pistorius var ekki viðstaddur en hann á nú yfir höfði sér að lágmarki 15 ára fangelsi. AFP

Önnur áfrýjun?

Talsmaður Pistorius-fjölskyldunnar sagði í dag að lagateymi kappans myndi nú setjast yfir dóminn og skoða kosti í stöðunni. Eitt þeirra úrræða sem Pistorius getur gripið til er að áfrýja málinu til æðsta dómstól Suður-Afríku, þ.e. stjórnarskrárdómstólsins.

Þar myndi koma til álita hvort málið hefði fengið réttláta meðferð í kerfinu. Lögmenn íþróttamannsins hafa hins vegar sagt að sjóðir hans séu uppurnir og því spurning hvort hann lætur kyrrt liggja ef hann sér fram á lágmarksdóm og reynslulausn.

Mál Pistorius hefur vakið hatramma umræðu í Suður-Ameríku varðandi ofbeldi gegn konum og meðlimir kvennahreyfingar ANC flokksins hafa fjölmennt í dómsal. „Þetta er yfirþyrmandi,“ sagði talsmaður hreyfingarinnar í dag. „Konur Suður-Afríku; konur heims unnu sigur í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert