Skotárás sem átti sér stað í Kaliforníu á miðvikudaginn verður nú rannsökuð sem hryðjuverk. Talsmaður bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, greindi frá þessu á blaðamannafundi rétt í þessu.
14 létu lífið þegar að Tashfeen Malik og eiginmaður hennar Syed Rizwan Farook hófu skothríð á hóp fólks í jólaboði í San Bernardino á miðvikudaginn.
Að sögn talsmanns FBI, David Bowdich, er ljóst að árásin var skipulögð í þaula en hjónin létu lífið í skotbardaga við lögreglu. Fyrr í dag kom fram að Malik hafi heitið tryggð við Ríki íslams á Facebook en sú færsla hefur nú verið fjarlægð.
Í dag var stórum hópi fjölmiðlamanna hleypt inn á heimilið sem hjónin deildu með móður Farook. Fréttastofan MSNBC var fyrst inn í húsið og sagði að lögregla hefði leyft þeim að fara inn. CNN fetaði fljótt í fótspor þeirra en þeim var hleypt inn af leigusala hjónanna. Að sögn sjónarvotta myndaðist hálfgerður sirkus á heimilinu þar sem fólk reyndi að ná myndum af eins miklu og hægt var.
Í húsinu mátti sjá hvernig hjónin bjuggu. Samkvæmt frétt CNN mátti finna nokkuð eðlilega hluti inn á heimilinu eins og klukku, sófa og rimlarúm, en einnig óeðlilega hluti eins og brotið gler og glugga sem búið var að negla fyrir.