Þriðja fórnarlambið látið

Frá Trollhättan
Frá Trollhättan AFP

Kennari við grunnskólann í Trollhättan í Svíþjóð lést af sárum sínum í gærkvöldi en hann særðist í sveðjuárás í skólanum í október.

Maðurinn, 42 ára stærðfræðikennari, særðist eftir að hafa mætt árásarmanninum Anton Lundin Petterson, 21 árs gömlum öfgasinna, sem réðst grímuklæddur til atlögu við fólk í skólanum 22 október.

Í síðasta mánuði veitti eiginkona kennarans fjölmiðlum viðtal þar sem hún sagði að eiginmaður sinn væri á batavegi, mánuði eftir árásina. Lögreglan hafði rætt við hann í fyrradag og það var í fyrsta skipti sem hægt var að ræða við hann. Hann gat sagt nokkur orð þegar hann vaknaði. Ég bað hann um að segja nafn mitt og hann gerði það, segir eiginkona hans, Samira í viðtali við Aftonbladet í síðasta mánuði. Hún sagði að eiginmaður hennar, Nazir, hefði fengið mikið af blómasendingum og batakveðjum frá nemendum við skólann.

Aðstoðarkennarinn Lavin Eskandar, 20 ára, og Ahmed Hassan, 15 ára nemandi, létust í árásinni en árásin var sú fyrsta sem gerð er í skóla í Svíþjóð áratugum saman.

Lögreglan segir að um hatursglæp sé að ræða en Lundin Pettersson aðhylltist öfgaskoðanir til hægri og valdi fórnarlömb sín eftir litarhætti þeirra. Tveir lög­regluþjón­ar skutu Ant­on Lund­in Petters­son til bana skömmu eftir árásina.

Frétt SVD

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert