Engin uppgjöf hjá Obama

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna sagði í vikulegu ávarpi sínu í dag að Bandaríkin myndu ekki gefa eftir í baráttunni við hryðjuverk. Hann ítrekaði jafnframt ákall sitt um herta byssulöggjöf í ávarpinu, sem snerist að mestu um fjöldamorðin sem voru framin San Bernardino í vikunni.

Líkleg þykir að árásarmennirnir hafi verið undir áhrifum frá hugmyndafræði Ríkis íslam, en alls féllu 14 í valinn fyrir hendi hjónanna Syed Farook og Tashfeen Malik á miðvikudag. Obama hvatti lögregluyfirvöld til að komast til botns í málinu, bæði hvers vegna og hvernig þetta gat gerst.

„Það kemur alveg til greina að þessir árásarmenn hafi snúist til öfgahyggju og framið þessi voðaverk,“ sagði Obama. 

„Við vitum að Ríki íslams og önnur hryðjuverkasamtök vinna ötullega að því að hvetja fólk - um allan heim og í okkar landi - að fremja hræðileg ofbeldisverk, oft er um að ræða einstaklinga sem eru einir á ferð,“ sagði forsetinn ennfremur. 

Hann sagði að allir verði að vinna saman að því að koma í veg fyrir að hryðuverkahóparnir hafi áhrif á fólk og nái að sá hatursfræjum. 

Farook og Malik féllu í skotbardaga við lögregluna sama dag og árásirnar voru gerðar. Bandaríska alríkislögreglan rannsakar nú hvort þau hafi tengst öfgahópum í öðrum löndum, en málið er rannsakað sem hryðjuverk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert