Fulltrúar bandarísku alríkislögreglunnar FBI, hafa gert húsleit á heimili manns sem er talinn hafa keypt tvo árásarriffla sem voru notaðir í skotárás í San Bernardino í Kaliforníu á mivðikudaginn. 14 létu lífið í árásínni.
Maðurinn býr við hliðina á húsinu þar sem hjónin Syed Farook og Tashfeen Malik bjuggu. Þau létu lífið í skotbardaga við lögreglu fjórum klukkustundum eftir að þau hófu skothríð á fólk í jólaboði.
Lögregla gat þó ekki rætt við manninn, Enrique Marquez, því hann hafði innritað sig á geðsjúkrahús eftir árásina.
Ríki íslams hefur lofað árásarmennina síðan á miðvikudaginn. Talið er að hinn 28 ára gamli Farook hafi verið í tengslum við grunaða vígamenn í Bandaríkjunum. Malik á að hafa heitið leiðtoga Ríkis íslams tryggð sína á Facebook rétt fyrir árásina.
Samkvæmt frétt Sky News er talið að Marquez hafi keypt árásarrifflana fyrir þremur árum síðan. Hann er ekki talinn vera grunaður um aðild að fjöldamorðunum.
Ekki er vitað hvort að hann hafi keypt byssurnar fyrir Farook eða að hann hafi fengið þær frá honum síðar.
Sprengjuleitarhundar tóku þátt í húsleitinni og voru faðir og yngri bróðir Marquez settir í varðhald í stutta stund. Að sögn nágranna mátti heyra glugga brotna og bílskúrshurðina og hurðir vera brotnar niður.
FBI segir ekkert benda til þess að Farook og Malik hafi verið liðsmenn Ríki íslams. Það getur þó vel verið að þau hafi verið undir áhrifum samtakanna.