Hlutabréf í byssuframleiðandanum Smith og Wesson hafa hækkað í kjölfar skotárásarinnar í San Bernardino í Kaliforníu í síðustu viku en árásarmennirnir notuðu skotvopn fyrirtækisins við ódæðið. Sala á byssum eykst í Bandaríkjunum í hvert skipti sem skotárás sem vekur athygli á sér stað.
Ótti sumra við að löggjöf um byssueign verði hert í kjölfar skotárása eins og þeirrar sem átti sér stað í Kaliforníu veldur því að sala á skotvopnum tekur kipp í framhaldinu. Alríkislögreglan FBI segir einnig að metfjöldi skotvopna hafi selst á hinum svonefnda svarta föstudegi þegar fjöldi verslana setur vörur á útsölu.
Stuðningsmenn þess að byssulöggjöfin verði hert halda því fram að byssuframleiðendur notfæri sér skotárásir af þessu tagi til þess að ala á ótta byssueigenda við að yfirvöld muni taka af þeim byssurnar. Það leiði aftur til þess að byssueigendur hamstri skotvopn með tilheyrandi hagnaði fyrir framleiðendurna.
„Ég held að þetta mynstur eigi sér stað vegna þess að byssuiðnaðurinn og þrýstihópar hans ala á verulegum ótta hjá baklandi sínu um að byssurnar verði teknar af þeim til þess að þeir geti selt fleiri byssur. Þetta er miskunnarlaus leit byssuiðnaðarins að hagnaði. Þeir bera enga virðingu fyrir mannslífum eða hörmungunum sem þeir valda samfélaginu,“ segir Po Murray, formaður Newton Action Alliance, þrýstihóps sem stofnaður var eftir skotárásina í Sandy Hook-grunnskólanum árið 2012.