„Frelsið er öflugra en hatrið“

„Frelsið er öflugra en hatrið,“ sagði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna er hann ávarpaði þjóð sína frá skrifstofu sinni, Oval Office, í gærkvöldi. Hann greindi frá því að árásin í San Bernardino hafi verið hryðjuverk sem ætlað var að drepa saklaust fólk.

Hann varar við því að hryðjuverkin megi ekki valda sundrung meðal bandarísku þjóðarinnar líkt og öfgamenn vilji. Obama segir að þetta sýni og sanni að það verði að taka harðar á byssueign landsmanna og þannig gera þeim sem hyggja á slíkar árásir erfiðara um vik.

Obama segir að Bandaríkin muni hafa betur í baráttunni við hryðjuverkaógnina en varar við því að Bandaríkjamenn megi ekki snúast gegn hver öðrum með því að skilgreina þetta sem stríð á milli Bandaríkjanna og íslam.

„Ef við ætlum að ná árangri í baráttunni við hryðjuverk þá verðum við að tryggja að samfélög múslíma séu okkar helstu bandamenn í stað þess að vísa þeim frá okkur með hatri og tortryggni.“

Hann minnti hlustendur sína á að múslímar í Bandaríkjunum séu hluti af bandarísku samfélagi. „Og já þau eru karlar og konur í einkennisbúningum sem eru reiðubúin til þess að deyja við að verja land okkar. Við megum ekki gleyma því,“ bætti Obama við.

Enda sé það sem vígasamtök eins og Ríki íslams vilja, að ala á sundrungu og hatri í garð múslíma í ríkjum eins og Bandaríkjunum.

Á vef BBC kemur fram að Obama hafi sagt í ávarpi sínu, en þetta er í þriðja skiptið í forsetatíð Obama sem hann ávarpar þjóð sína úr skrifstofu sinni,  að það væru nokkur atriði sem þyrfti að framkvæma. Þar á meðal að herða byssulöggjöfina og að yfirfara K-1 vegabréfsáritunarkerfið sem gildir um unnusta/unnustur Bandaríkjamanna en konan sem framdi hryðjuverkið í San Bernardino kom fyrst til Bandaríkjanna í gegnum það kerfi. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert