Suðurafríski spretthlauparinn Oscar Pistorius verður látinn laus gegn tryggingu en hann hefur verið dæmdur sekur um morð á unnustu sinni, Reeva Steenkamp. Hann ætlar að áfrýja dómnum.
Pistorius kom fyrir dómara, Aubrey Ledwaba, í morgun og féllst dómari á að hann yrði laus gegn tryggingu, tæplega 100 þúsund krónur, þangað til hann þarf að mæta fyrir dóm á ný 18. apríl 2016.
Honum verður heimilt að yfirgefa heimili sitt á milli kl. sjö á morgnana til hádegis og getur farið í allt að 20 km fjarlægð frá heimili frænda síns þar sem hann er í stofufangelsi. Pistorius er jafnframt gert að ganga með ökklaband og tilkynna allar ferðir sínar utanhúss.
Pistorius á yfir höfði sér langan fangelsisdóm eftir að hæstiréttur Suður-Afríku fann hann sekan um morð. Í undirrétti var hann dæmdur fyrir manndráp af gáleysi og dæmdur í fimm ára fangelsi. Hann var látinn laus úr fangelsi og gert að sitja í stofufangelsi eftir að hafa afplánað eitt ár.