Bresk stjórnvöld fordæmdu í dag ummæli bandaríska forsetaframbjóðandans og auðkýfingsins Donalds Trump þess efnis að banna ætti múslimum að koma til Bandaríkjanna. Það gerði breski rithöfundurinn J. K. Rowling líka, höfundur bókanna um galdrastrákinn Harry Potter.
Rowling sagði á Twitter-síðu sinni að Voldemort, helsti óvinur Potters, hafi alls ekki verið eins slæmur og Trump. David Cameron, forsætisráðherra Breta, sagðist á hinn bóginn vera algerlega ósammála ummælum forsetaframbjóðandans sem væru til þess fallin að skapa gjár á milli fólks, væru alls ekki gagnleg og einfaldlega röng.
Bandarísk stjórnvöld hafa að sama skapi tjáð sig um ummælin en bandaríska forsetaskrifstofan hvatti í dag repúblikana til þess að hafna Trump. Með ummælum sínum hefði hann gert sig óhæfan til þess að gegna embætti forseta Bandaríkjanna og yfirmanns bandaríska heraflans.