Æfðu sig á skotæfingasvæði í ár

Hjónin Syed Farook og Tashfeen Malik.
Hjónin Syed Farook og Tashfeen Malik. AFP

Hjónin Syed Farook og Tashfeen Malik undirbjuggu árásina í San Bernardino í að minnsta kosti ár. Í frétt NBC kemur fram að hjónin hafi æft sig á skotæfingasvæði og ráðstafað fjárhag sínum ef þau skyldu deyja í árásinni.

Að sögn heimildarmanna NBC geti verið að hjónin hafi fyrst rætt möguleikann á því að fremja árás í Bandaríkjunum fyrir þremur árum.

Tveir heimildarmenn staðfesta það að Farook og Malik hafi æft skotfærni sína á skotæfingasvæði í Riverside í Kaliforníu í að minnsta kosti ár áður en þau skutu 14 til bana í jólaveislu í síðustu viku. 21 særðist í árás hjónanna.

Einnig eiga Malik og Farook að hafa gengið frá öllum peningamálum fyrir dóttur þeirra og móður Farook áður en þau létu lífið í skotbardaga við lögreglu fjórum tímum eftir árásina. Móðir Farook, hin 62 ára gamla Rafia Farook, bjó með hjónunum í Redlands í Kaliforníu. Sex mánaða gömul dóttir hjónanna var á heimilinu með ömmu sinni þegar árásin var framin.

Rannsakendur skoða nú einnig millifærslu upp á 28.500 bandaríkjadali (jafnvirði 3,7 milljóna íslenskra króna) inn á reikning Farook nokkrum vikum fyrir árásina. Ekki liggur fyrir hver lagði peningana inn en millifærslan kemur heim og saman við þann möguleika að hjónin hafi verið að undirbúa árásina og fjárhagslegt öryggi dóttur þeirra ef þau myndu láta lífið í árásinni eða eftirmálum hennar.

Í frétt Reuters er því haldið fram að millifærslan hafi verið lán frá lánafyrirtækinu Prosper. Fyrirtækið gaf út fréttatilkynningu þar sem fram kom að ekki væri löglegt að gefa upp upplýsingar um viðskiptavini.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert