Voru öfgafull áður en þau kynntust

Syed Farook and Tashfeen Malik við komuna til Chicago í …
Syed Farook and Tashfeen Malik við komuna til Chicago í júlí 2014. AFP

Parið sem myrti 14 manns í skotárás á veislugesti í San Bernardino hafði verið snúið til öfga fyrir í það minnsta tveimur árum síðan, áður en þau kynntust á veraldarvefnum.

Þessu greindi James Corney, framkvæmdastjóri FBI, frá í dag fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings..

Bandaríkjamaðurinn Syed Farook og kona hans, Tashfeen Malik frá Pakistan sóttu innblástur í hryðjuverkahópa og ræddu „jihad og píslarvottadauða“ árið 2013 ef ekki fyrr að sögn Corney.

Sagði hann rannsókn gefa til kynna að parið hefði verið orðið hliðhollt róttækum íslamistum áður en þau hófu ástarsamband í gegnum netið.

„Og á netinu, svo snemma sem við lok árs 2013, ræddu þau við hvort annað um jihad og píslarvottardauða áður en þau trúlofuðust og giftust og bjuggu saman í Bandaríkjunum.“

„Við teljum einnig að þau hafi sótt innblástur í erlend hryðjuverkasamtök,“ sagði Corney.

Hópurinn Ríki íslams hefur hyglt hjónunum sem „hermönnum“ málstaðs þeirra en Bandarísk yfirvöld segja engin sönnunargögn liggja fyrir á þessu stigi um að þau hafi tilheyrt hryðjuverkasamtökum.

Corney sagði FBI vinna hörðum höndum að því að rannsaka hvort einhver hefði aðstoðað þau við árásina, stutt þau eða séð þeim fyrir vopnum. Eins sé unnið að því að rannsaka hvort þau hafi haft einhverjar aðrar fyrirætlanir.

Parið skaut 14 manns til bana og særði 21 í veislu samstarfsfólks Farooks sem haldin var í félagsþjónustumiðstöð í san Bernardino. Yfirvöld segja þau hafa komið sér upp stóru vopna safni á heimili sínu í Kaliforníu sem innihélt m.a. þúsundir skothylkja, tólf rörasprengjur og efni til sprengjugerðar.

Margir fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa greint frá því að rannsakendur gruni að Malik hafi sveigt eiginmann sinn til öfgahyggju og verið drifkrafturinn að baki árásunum. Er hún talinhafa heitið Ríki íslams hollustu sinni í Facebook færslu undir öðru nafni, um það leiti sem árásirnar voru framkvæmdar.

Kveikt á kertum fyrir fórnarlömb árásarinnar.
Kveikt á kertum fyrir fórnarlömb árásarinnar. AFP

Dulkóðun vaxandi vandamál

Farook og Malik komu saman til Bandaríkjanna í júlí 2014, hann á bandaríska vegabréfinu sínu og hún á svokölluðu unnustu-visa. Þau eignuðust dóttur fyrr á þessu ári og var hún sex mánaða þegar þau frömdu voðaverkin.

Öldungardeildarþingmaðurinn Lindsey Graham, frambjóðandi til forsetaútnefningar repúblíkana spurði Corney hvort einhver sönnunargögn væru fyrir því að hjónaband parsins hefði verið skipulagt af meðlimum öfgahópa. Corney sagði það mjög mikilvægan hlut að vita og að yfirvöld væru að athuga þann möguleika. Sagði hann það breyta öllu ef hryðjuverkamenn „gætu raunverulega komið á hjónabandi tveggja líkt þenkjandi einstaklinga og notað unnustu-visa kerfið til að komast inn í landið.“

Yfirlýsingar Corney voru hluti af stærri vitnisburði um yfirsjón FBI og það sem hann kallaði „yfirþyrmandi fjölda ógnanna sem blasa við landinu okkar – í hryðjuverkum, í njósnum og glæpa málum.“

Sagði hann FBI einblína sérstaklega á hættuna við ofbeldisfulla öfgahyggju heima við.

„Að finna þá sem er snúið til öfga af og fá innblástur frá þessum hryðjuverkahópum er mjög, mjög erfitt.“

Corney ræddi einnig um aukinn vanda í kringum dulkóðun þar sem síerfiðara væri að fylgjast með grunuðum öfgamönnum sem „myrkvast“ með auðfáanlegum dulkóðunar-þjónustum þ.á.m. í skilaboðaþjónustum fyrir farsíma og leikjatölvum.

Benti Corney á aðra árás í Garland í Texas í maí þar sem lögreglu tókst að koma í veg fyrir dauðsföll með snöggum viðbrögðum. Sagði hann einn árásarmanninn hafa skipst á 109 skilaboðum við þekktan hryðjuverkamann erlendis stuttu fyrir árásina, sem gerð var á keppni um teiknimyndir af Múhameð spámanni. Sjö mánuðir eru liðnir frá árásinni og sagði Corney að enn væru yfirvöld engu nær um hvað sagt var í skilaboðunum þar sem þau voru dulkóðuð.

„Það er stórt vandamál.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert