Kafarar leita gagna í San Bernardino

AFP

Kafarar bandarísku alríkislögreglunnar hófu í gær leit í Seccombe Lake Park-vatni í Kaliforníu í tengslum við fjöldamorðin í San Bernardino í síðustu viku. Vatnið er í þriggja km fjarlægð frá árásarstaðnum.

Talsmaður FBI segir í samtali við BBC að hjónin sem frömdu ódæðið hafi farið í garðinn sama dag og árásin var gerð.

Árásin er rannsökuð sem hryðjuverkaárás en hjónin Tashfeen Malik og Syed Farook skutu fjórtán til bana á jólaskemmtun á vinnustað Farooks. 22 særðust í árásinni. Lögreglan skaut þau Malik og Farook til bana þegar þau flúðu af vettvangi. FBI segir að þau hafi öfgavæðst fyrir einhverjum árum.

FBI hefur neitað að upplýsa að hverju kafararnir eru að leita annað en að upplýsingar liggi fyrir um að þau hafi komið í garðinn þennan umrædda dag.

Heimildir bandarískra fjölmiðla herma að leitað sé að raftækjum, svo sem hörðum disk tölvu, sem tengist árásarfólkinu. 

Svo virðist sem þau hafi byrjað strax að ræða heilagt stríð og píslarvættisdauða árið 2013 en á þeim tíma var Malik ekki enn komin til landsins. Það var síðan á síðasta ári sem hún fékk vegabréfsáritun á grundvelli þess að þau væru par.

Margir spyrja sig þeirrar spurningar hvers vegna lögreglan eða leyniþjónustan hafi ekki vitað eða fylgst með parinu. Malik lýsti yfir hollustu við Ríki íslams á samfélagsmiðlum sama dag og hún tók þátt í árásinni.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert