Hvað felur Parísarsamkomulagið í sér?

Markmiðið er að hlýnun jarðar verði ekki meiri en 1,5°C …
Markmiðið er að hlýnun jarðar verði ekki meiri en 1,5°C að meðaltali. AFP

Sendinefndir 195 þjóða samþykktu í gærkvöldi sögulegt samkomulag til að reyna að vinda ofan af loftslagsbreytingum sem orsakað hafa hlýnun jarðar. Samkomulagið felur m.a.í sér áætlanir um varnir gegn áhrifunum. 

Áskorunin

 Í samkomulaginu kemur fram að loftslagsbreytingar séu „áríðandi og mögulega óafturkræf ógn við samfélög  manna og jarðarinnar.“ Í því er tekið fram að ef fram yrði haldið á sömu braut í losun gróðurhúsalofttegunda yrði ekki hægt að ná markmiðum um að komast hjá hlýnun jarðar.

Markmiðið

 Tilgangur samkomulagsins er að halda hlýnun jarðar „vel innan við“ 2°C og að keppast að því að hún verði ekki meiri en 1,5°C ef mögulegt er.

Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands og forsvarsmaður loftslagsráðstefnunnar í París fagnar …
Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands og forsvarsmaður loftslagsráðstefnunnar í París fagnar samkomulaginu sem gert var í gær. AFP

 Hvernig?

 Heimsbyggðin skal stefna að því að útblástur gróðurhúsaloftegunda verði í hámarki „á næstunni“ og í kjölfarið fylgi „hraður samdráttur“.

Eftir miðja öld verði að vera komið jafnvægi á milli losunar vegna athafna manna s.s. orkuvinnslu og landbúnaðar, og þess magns sem hægt er að fanga í „kolefnisniðurföllum“ s.s. með skógum og tækninýjungum.

 Að deila byrðunum

 Iðnríkin, sem hafa mengað lengur „ættu að taka forystu“ í því að draga úr losun. Fátækari þjóðir sem þurfa enn að brenna kolum og olíu eru hvattar til að bæta aðgerðir sínar og með tímanum að draga úr losun.

Ætlast er til þess að ríkari þjóðir bjóði þeim fátækari stuðning við að draga úr losuninni.

 Áætlanir

Árið 2018, tveimur árum áður en samkomulagið tekur gildi, munu þjóðirnar gera kannanir á áhrifum aðgerða sinna til að draga úr hlýnun jarðar og endurmeta þær fyrir árið 2020.

 Sumar þjóðir hafa sett sér ákveðin markmið í fyrstu lotu til ársins 2025 en önnur til ársins 2030.

 Þegar samkomulagið tekur gildi verða aðgerðir landa endurmetnar á fimm ára fresti. Niðurstaðan verður notuð til að upplýsa löndin svo þau geti breytt og aðlagað skuldbindingar sínar. 

Sögulegt samkomulag.
Sögulegt samkomulag. AFP

 Fjármögnun

 Iðnríkin „skulu útvega“ fjármögnun til að aðstoða fátækari ríki við þá kostnaðarsömu aðgerð að skipta yfir í vistvænni orku og bæta varnir sínar gegn loftslagsbreytingum, s.s. þurrkum og óveðrum.

Auka verður við fjármagnið frá því sem nú er og í samkomulaginu segir að ríkari þjóðir „verði að“ skila skýrslu á tveggja ára fresti um hversu miklu fé þær ráðstafi til þessa, nú og samkvæmt áætlunum.

 Ekki náðist samkomulag um að skuldbinda þjóðirnar til ákveðinnar fjármögnunar en miðað er við að þeir 100 milljarðar dala, sem ríkari þjóðir hafa heitið að safna til þessara aðgerða, verði álitnir nokkurs konar „gólf“ til ársins 2020. Fjármögnunin verði svo uppfærð árið 2025. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka