Árásarmennirnir bornir til grafar

Syed Farook and Tashfeen Malik við komuna til Chicago í …
Syed Farook and Tashfeen Malik við komuna til Chicago í júlí 2014. AFP

Útför hjónanna Syed Rizwan Farook og Tashfeen Malik, sem hófu skothríð á fólk í jólaboði í San Bernardino í Kaliforníu fyrr í mánuðinum, fór fram á þriðjudaginn. Útförin var fámenn en FBI fulltrúar voru á staðnum til að tryggja öryggi. Reuters segir frá þessu.

Margir sem stunduðu sömu mosku og hjónin neituðu að mæta í útförina.

Farook og Malik drápu fjórtán og særðu 21 í árásinni sem bandarísk yfirvöld hafa kallað hryðjuverkaárás. Þau létu lífið nokkrum klukkustundum síðar í skotbardaga við lögreglu.

Samkvæmt frétt Reuters var um hefðbundna útför múslima að ræða. Í kirkjugarði múslíma voru líkin hreinsuð samkvæmt íslömskum reglum, vafin inn í hvít klæði og grafin.

Gestur við útförina sagði í samtali við Reuters að það hafi tekið viku að finna kirkjugarð sem var til í að taka á móti líkunum. Fólkið var grafið í kirkjugarði langt frá San Bernardino en kirkjugarður í nágrenni borgarinnar neitaði að taka við líkunum þar sem óttast var að grafirnar yrðu vanhelgaðar.

Múslímar eru yfirleitt bornir til grafar innan við sólarhring eftir að þeir deyja. Fjölskylda hjónanna þurfi að bíða í nokkra daga eftir að lögregla afhenti þeim líkin eftir rannsókn og leita síðan að kirkjugarði sem var til í að taka á móti þeim. 

Að sögn heimildarmanns Reuters voru um tíu manns viðstaddir útförina, þar á meðal fjölskyldumeðlimir Farook og fólk sem stundaði sömu mosku og hann í San Bernardino.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert