Vladimír Pútín, forseti Rússlands, sparar ekki stóru orðin þegar hann tjáði sig um tyrknesk stjórnvöld í dag en Tyrkir skutu niður rússneska herflugvél á landamærum Sýrlands í síðasta mánuði. Segir hann að Tyrkir hafi ákveðið að sleikja Bandaríkin á ákveðnum stöðum.
Pútín tjáði sig meðal annars um árásina á árlegum blaðamannafundi sínum í morgun en farið var um víðan völl á fundinum. Að sögn forsetans var um óvinaaðgerð að ræða og að Rússar hafi ákveðið að beita þá refsiaðgerðum.
Rússar hófu loftárásir í Sýrlandi í september og komu þar forseta Sýrlands, Bashar al-Assad, til aðstoðar. Hafa þeir síðan haldið uppi árásum á andstæðinga stjórnvalda í Sýrlandi. Þetta hefur verið harðlega gagnrýnt af Tyrkjum, Bandaríkjunum og ríkjunum við Persafóla.
Hann segir að Rússar styðji ályktun sem Bandaríkin hafa undirbúið um að beita vígasamtökin Ríki íslams refsiaðgerðum og reyna að koma í veg fyrir tekjuflæði þeirra meðal annars með olíusölu.
Ályktunin verður kynnt í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og hefur Pútín rætt hana við utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry. Pútín segir að í heildina litið þá er ályktunin ásættanleg þrátt fyrir að einhverjar lagfæringar þurfi að gera. Hann telur að yfirvöld í Sýrlandi muni einnig samþykkja ályktunina og hvetur til þess að allir verði að gefa eftir að hluta.
Pútín hvetur til þess að samkomulag náist um að koma á nýrri stjórnarskrá í Sýrlandi þar sem gagnsæi verði í lykilhlutverki svo Sýrlendingar geti kosið sér leiðtoga í lýðræðislegum kosningum.
Síðar í dag mun öryggisráðið funda með fjármálaráðherrum um að samþykkja ályktunina sem miðar að því að herða sultarólina fjárhaglega hjá Ríki íslams.