Minniskort í flugrita rússneskrar herþotu sem var skotin niður af Tyrkjum við landamæri Sýrlands í síðasta mánuði er skemmt og var ekki hægt að ná af því upplýsingum í dag.
„Svartur kassi“ Su-24 þotunnar var opnaður í Moskvu í dag fyrir framan blaðamenn og diplómata. Nikolai Primak, sem stjórnar rannsókn Rússa á málinu, sagði að það liti út fyrir að það vantaði upplýsingar um flugferðina inni á ritanum. Ekki var hægt að sækja gögn af ritanum en þau eru nauðsynleg til þess að leysa deilu milli Tyrkja og Rússa um staðsetningu þotunnar þegar hún var skotin niður.
Mikil spenna er nú á milli Tyrkja og Rússa vegna málsins og ætla stjórnvöld í Rússlandi að setja viðskiptabann á Tyrki.
Tyrkir halda því fram að rússneska þotan hafi hunsað viðvaranir um að hún ætti að yfirgefa tyrkneska lofthelgi. Rússar neita því að segja að þotan hafi verið skotin niður í sýrlenskri lofthelgi.
Þotan var skotin niður 24. nóvember. Annar flugmaðurinn var skotinn til bana þegar hann sveif niður í fallhlíf. Hinum var bjargað.
Rússar hafa krafist þess að Tyrkir biðjist afsökunar á að hafa skotið þotuna niður. Þeir hafa jafnframt stöðvað ferðir rússneskra ferðaskrifstofa til Tyrklands sem gæti þýtt milljarðatjón fyrir ferðaþjónustuna þar í landi.