Evrópuþingmaðurinn Jens Rohde hefur sagt sig úr Venstre og gengið til liðs við danska jafnaðarmenn vegna fyrirætlana stjórnvalda um að leggja hald á fjármuni og verðmæti flóttamanna umfram 3.000 danskar krónur.
Frétt mbl.is: Vilja leggja hald á verðmæti
Rohde sagði í samtali við Politiken að stjórnarflokkurinn hefði farið útaf sporinu og væri að stíga í vænginn við Danska þjóðarflokkinn, sem styður minnihlutastjórn Lars Løkke Rasmussen á þinginu.
Evrópuþingmaðurinn sagðist jafnframt uggandi yfir því að tillögurnar hefðu ekki farið meira fyrir brjóstið á Dönum. „Það getur ekki verið rétt að við sættum okkur við að þeir taki síðasta skartið og síðustu reisn flóttamanna þegar þeir koma til Danmerkur,“ sagði hann.
Frétt mbl.is: Snýst ekki um demanta og skart
Fyrirhuguðu löggjöf mun gefa yfirvöldum vald til að leita í fatnaði og farangri hælisleitenda og annarra sem hafa ekki dvalarleyfi, og leggja hald á verðmæti til að mæta kostnaði vegna móttöku fólksins.