Stofnuð hefur verið Facebook-síða í Noregi til stuðnings þess að Norðmenn gefi nágrönnum sínum Finnum alfarið fjallið Halti. Hluti fjallsins er í norðurhluta Noregs og hluti þess í norðurhluta Finnlands. Hæsti tindur Halti er hins vegar 20 metrum fyrir innan landamæri Noregs að Finnlandi. Hæsti tindur Finnlands, Hálditšohkka, er hluti af Halti en fjallið gengur einnig undir nafninu Ráisduattarháldi í Noregi.
Fjallað er um málið á fréttavefnum Thelocal.no en hugmyndin er að Norðmenn gefi Finnum Halti að öllu leyti í tilefni af aldarafmæli sjálfstæðis Finnlands árið 2017. Verði hún að veruleika yrði fjallið hæsti tindur Finnlands eða 1365 metrar en Hálditšohkka er 1324 metrar. Tindur Halti kemst hins vegar ekki á lista yfir 200 hæstu tinda Noregs. Facebook-síðan var sett á laggirnar fyrr í þessum mánuði og hafa 10 þúsund manns „lækað“ hana til þessa.
Stuðningsmenn hugmyndarinnar segja að um rausnarlega gjöf væri að ræða sem skipti Norðmenn sáralitlu máli. Norðmenn myndu missa 0,015 ferkílómetra landsvæði við breytinguna á landamærunum. Hugmyndin er komin frá Bjørn Geirr Harsson sem er fyrrverandi starfsmaður landmælinga Noregs en sonur hans mun hafa sett upp síðuna á Facebook. Núverandi yfirmaður stofnunarinnar, Anne Cathrine Frøstrup, hefur tekið vel í hugmyndina.