Nóbelsverðlaunahafar, þjóðarleiðtogar, tónlistargoðsagnir og Drakúla sjálfur eru meðal þeirra þekktu einstaklinga sem létu lífið á árinu sem er að líða.
Konungur Sádi-Arabíu, Abdullah bin Abdulaziz lést 23. janúar eftir að hafa fengið lungabólgu. Hann var um nírætt þegar hann lést. Sama dag lést fyrrverandi forseti Þýskalands, Richard von Weizsäcker, 94 ára gamall.
27. febrúar var það síðan bandaríski leikarinn Leonard Nimoy sem lést á heimili sínu í Los Angeles. Nimoy, sem var 83 ára þegar hann lést, var þekktastur fyrir að hafa leikið Mr. Spock í Star Trek-myndunum.
26. mars lést sænska skáldið Tomas Tranströmer. Hann var 83 ára gamall en hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2011.
Þýska Nóbelskáldið Gunter Grass lést á sjúkrahúsi í borginni Lübeck 13. apríl. Hann var 87 ára gamall.
Daginn eftir eða 14. apríl lést bandaríski tónlistarmaðurinn Percy Sledge í Louisiana. Hann var 74 ára en dánarorsökin var lifrarkrabbamein.
Það var síðan mánuði síðar, 14. maí, sem tónlistarmaðurinn BB King, andlit bandarískrar blústónlistar, lést í Las Vegas, 89 ára gamall.
30. júní lést Beau Biden, elsti sonur Joes Bidens, varaforseta Bandaríkjanna. Hann var einnig fyrrverandi ríkissaksóknari Delaware. Hann var aðeins 46 ára gamall en banamein hans var heilakrabbamein.
Goðsögnin Christopher Lee, sem gerði persónu Drakúla ódauðlega, lést 7. júní í Lundúnum. Hinn 93 ára gamli Lee fór með hlutverk í fjölmörgum stórmyndum í gegnum tíðina, en á síðari árum haslaði hann sér einnig völl í þungarokkstónlist og gaf út hljómplötur. Lee fór m.a. með hlutverk Sarúmans í þríleiknum um Hringadróttinssögu, var rödd Dooku greifa í Stjörnustríðsmyndunum og lék illmennið Scaramanga í James Bond-myndinni The Man With The Golden Gun.
Fyrrverandi forseti og forsætisráðherra Tyrklands, Suleyman Demirel, lést á sjúkrahúsi í Ankara 17. júní. Hann var níræður og banamein hans var hjartaáfall.
1. júlí lést Nicholas Winton, en hann var kallaður „hinn breski Schindler“ eftir að hann bjargaði hundruðum gyðingabarna frá nasistum áður en seinni heimsstyrjöldin skall á. Hann varð 106 ára gamall og lést nálægt Lundúnum. Sama dag lést egypska kvikmyndagoðsögnin Omar Sharif á sjúkrahúsi í Kaíró. Hann var þekktastur fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Doctor Zhivago. Hann var 83 ára þegar hann lést.
Bobbi Kristina Brown, dóttir Whitney Houston og Bobbys Browns, lést 26. júlí eftir að hafa verið meðvitundarlaus í sex mánuði. Bobbi Kristina, sem var aðeins 22 ára gömul, fannst meðvitundarlaus í baðkari á heimili sínu í Atlanta í Georgíu í byrjun árs og náði aldrei meðvitund.
30. ágúst lést hryllingsmyndaleikstjórinn Wes Craven á heimili sínu í Los Angeles. Hann var 76 ára en banamein hans var krabbamein í heila. Hann leikstýrði m.a. Scream-myndunum, The Hills Have Eyes og The Last House on the Left.
Metsöluhöfundurinn Jackie Collins lést úr brjóstakrabbameini 19. september. Hún var 77 ára gömul og skrifaði fjölmargar rómantískar skáldsögur á ferlinum.