Kína ætlar að vísa franskri blaðakonu, Ursula Gauthier, úr landi vegna skrifa hennar í tímaritið L‘Obs, þar sem hún gagnrýndi aðgerðir stjórnvalda gagnvart minnihlutahóp Uighur múslima í héraðinu Xinjiang. Margir þeirra hafa gagnrýnt stjórnvöld fyrir mismunun og yfirgang vegna menningar þeirra og trúar.
Kína hefur staðfest að blaðakonunni verði gert að yfirgefa landið fyrir lok ársins, en þetta er í fyrsta skipti síðan árið 2012 sem slíkt er gert við blaðamann. Þá var Melissa Chan, fréttamanni Al Jazeera, gert að yfirgefa landið.
Stjórnvöld segja að fréttamannaleyfi Gauthier verði ekki endurnýjað, en þar með fellur úr gildi dvalarleyfi hennar. Segja stjórnvöld að grein hennar hafi á hneykslanlegan hátt fagnað hryðjuverkastarfsemi og drápum á saklausum borgurum. Það hafi valdið hneykslan almennings í Kína. „Það er ekki viðeigandi að hún haldi áfram að vinna í Kína,“ segir í yfirlýsingu stjórnvalda í kjölfar þess að hún vildi ekki biðjast innilegrar afsökunar á grein sinni.