Loksins tókst að kveikja í Gävle geitinni í Svíþjóð en það gerist yfirleitt alltaf fyrir jól. Svo bar til í ár að ekki var kveikt í henni fyrr en í nótt. Í fyrra tókst hins vegar ekki að kveikja í henni en á þeim 49 árum sem jólageitin hefur verið sett upp hefur verið kveikt í henni í 34 skipti.
En brennuvargurinn náðist og gistir fangageymslu í Gävle. Að sögn lögreglu var tilkynnt um að kveikt hafi verið í strágeitinni sem stóð á Slottstorginu um þrjú í nótt. Brennuvargurinn var handtekinn skömmu síðar dauðadrukkinn, með lambhúshettu á hausnum, haldandi á dagblöðum og kveikjara auk þess sem hann angaði ekki bara af áfengi heldur einnig bensíni.
Myndskeið sem tekin voru af brennuvarginum sem er um tvítugt sýna að það hefur kviknað í fötum hans þegar hann reyndi að kveikja í geitinni. Í morgun hafði ekki enn tekist að yfirheyra hann vegna þess hve ölvaður hann var. Félagi hans hefur ekki fundist.
Jólageitur eru algengar í Svíþjóð en engin þeirra er jafn fræg og strágeitin í Gävle sem er 13 metrar á hæð.
Jólageitin hefur hins vegar sett inn afsökunarbeiðni á Twitter vegna þess hversu snemma hún yfirgefur borgina í ár en lofar að snúa endurnærð til baka að ári - á fimmtugsafmælinu.
Ledsen att behöva lämna er för tidigt i år! Tack för den här tiden med er mina vänner! Vi ses nästa år på mitt 50-årskalas!
— Gävlebocken (@Gavlebocken) December 27, 2015