Blaðamenn AFP fréttastofunnar völdu Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, áhrifamesta mann ársins 2015. Það eru einkum afskipti hennar af flóttamannavandanum í Evrópu og fjármálakreppunnar í Grikklandi sem skýra val blaðamannanna.
Í atkvæðagreiðslu meðal allra starfsmanna á ritstjórnum AFP út um heim allan hafnaði Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, í öðru sæti listans yfir áhrifamesta fólkið í heiminum árið 2015. Í fyrra var Pútín í fyrsta sæti listans.
Merkel vakti heimsathygli þegar hún opnaði landamæri Þýskalands fyrir flóttafólki og í augum margra sýrlenskra og afganskra flóttamanna er hú „Mama Merkel“. Stefna Merkel vakti hins vegar litla hrifningu meðal ýmissa starfsbræðra hennar í Evrópu.
Eins gegndi hún lykilhlutverki í að koma á samkomulagi um fjármál Grikklands sem rambaði enn einu sinni á barmi gjaldþrots. Merkel var einnig valin maður ársins hjá Time tímaritinu.
Pútín var áberandi í fréttum ársins líkt og undanfarin ár. Segja má að forseti Sýrlands, Bashar al-Assad, eigi Pútín að þakka að hann gegnir enn starfi forseta Sýrlands og um leið að ekki hafi tekist að binda endi á stríðið í Sýrlandi sem hefur geisað í meira en fjögur ár.
Frans páfi er í þriðja sæti listans. Meðal þess sem nefnt er varðandi tilnefningu hans eru afskipti hans af samskiptum Bandaríkjanna og Kúbu og friðarferlinu í Kólumbíu.
Parísarbúar skipa fjórða sætið en 1,5 milljón borgarbúa tóku þátt í samstöðufundum eftir hryðjuverkaárásirnar í janúar. París varð fyrir öðru höggi í nóvember þegar 130 létust í hryðjuverkaárásum í borginni.