Harmar blýmengun í drykkjavatninu

Rick Snyder, ríkisstjóri Michigan.
Rick Snyder, ríkisstjóri Michigan. AFP

Ríkisstjóri Michigan-ríkis í Bandaríkjunum hefur beðið íbúa bæjarins Flint afsökunar á ákvörðun sem varð til þess að drykkjarvatn þeirra er blýmengað. Yfirmaður heilbrigðiseftirlits ríkisstjórnarinnar hefur sagt af sér eftir að rannsókn leiddi í ljós að stofnun hans bæri mesta ábyrgð á klúðrinu.

Neyðarástandi var lýst yfir í bænum um miðjan desember vegna blýmengunarinnar í drykkjarvatninu. Niðurstöður rannsóknar benda til þess að nýfædd börn í bænum fæðist með óvenjumikið magn blýs í blóði. Það getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu þeirra. Bærinn fékk áður vatn frá Detroit-borg en fyrri bæjarstjórn ákvað að hætta því og sækja frekar vatn í Flint-ána.

Í yfirlýsingu frá Rick Snyder, ríkisstjóra Michigan-ríkis, kom meðal annars fram að afsögn yfirmanns heilbrigðiseftirlits ríkisins hafi verið réttmæt viðbrögð. Hún ein og sér dugi þó ekki til. Hefur hann boðið utanaðkomandi sérfræðingum að vinna með starfsmönnum ríkisins við að bæta vatnið í Flint.

„Ég vil að samfélagið í Flint viti hversu leitt mér þykir að þetta skuli hafa gerst og ég vil að allir borgarar í Michigan viti að við munum læra af þessari reynslu vegna þess að Flint er ekki eina borgin sem er með innviði sem eru að eldast,“ sagði Snyder.

Heilbrigðisfulltrúar ríkisins gerðu lítið úr kvörtunum íbúa í Flint vegna vatnsins og þrættu fyrir niðurstöður rannsókna sem sýndu fram á tengsl á milli aukins magns blýs í blóði barna og breytinganna á vatnsforða bæjarins. Rannsóknarnefnd sem ríkisstjórinn setti á fót komst að þeirri niðurstöðu að það væri sú lítilsvirðing sem heilbrigðiseftirlitið sýndi gagnvart áhyggjum íbúa og að það hafi ekki gripið til ráðstafana til að meðhöndla vatnið sem væri helsti valdur ástandsins í bænum.

Breytingin á vatninu átti sér stað í apríl 2014 en það var ekki fyrr en í október sem ríkisstjórinn viðurkenndi að ástandið væri byrjað að varða almannaheill. Tilkynnti hann að Flint myndi aftur fá drykkjarvatn sitt frá Detroit.

Frétt The Guardian

Fyrri frétt mbl.is: Neyðarástand vegna blýmengunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert