„Munum láta jörðina skjálfa undir fótum ykkar“

Evrópusambandið hefur nú bæst í hóp þeirra sem gagnrýna yfirvöld í Sádi-Arabíu harðlega fyrir að hafa tekið múslímaklerkinn Nimr al-Nimr af lífi í dag. Sambandið segir aftökuna eins og að hella olíu á eld. Ráðamenn í Írak og Íran hafa í hótunum við Sádi-Araba vegna þessa.

„Aftaka Nimr al-Nimrs vekur upp alvarlegar áhyggjur vegna stöðu tjáningarfrelsis og virðingu fyrir mannréttindum og pólitískum réttindum,“ segir í yfirlýsingu frá Federica Mogherini sem er æðsti talsmaður Evrópusambandsins í utanríkis- og öryggismálum. 

„Þetta atvik gæti orðið til þess að auka enn á þær trúarbragðadeilur sem þegar hafa valdið svo miklum skaða í þessum heimshluta með alvarlegum afleiðingum,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.

Í morgun voru 47 fangar teknir af lífi í Sádi-ArabíuNimr al-Nimr, sem var klerkur sjíta-múslíma, hafði verið dæmdur til dauða fyrir glæpi tengda hryðjuverkum. Hann var í hópi þeirra sem mótmæltu stjórnarfari í landinu og misrétti sem hann sagði sjíta-múslíma vera beitta árið 2011 og var handtekinn í kjölfarið, en landinu er að miklu leyti stjórnað af súnní-múslímum.

Vilja loka sendiráði og lífláta fanga

Íranar höfðu beðið al-Nimr griða og sendi ríkisstjórn Írans frá sér harðorða yfirlýsingu í dag þar sem segir að Sádi-Arabar muni þurfa að gjalda aftökuna dýru verði. Í yfirlýsingunni segir m.a. að Sádi-Arabar styðji hryðjuverkasamtök og öfgamenn, en takist á við þau vandamál sem upp komi í landinu með kúgun og aftökum. „Aftaka Nimr al-Nimrs sýnir skort á ábyrgð og skynsemi.“ Mótmæli eru fyrirhuguð í Qom moskunni, stærstu mosku Írans, vegna aftökunnar.

Írakar hafa krafist þess að sendiráði Sádi-Arabíu í Bagdad, höfuðborg Íraks, verði lokað og sendiherranum vísað úr landi. Þá hefur Khalaf Abdelsamad, sem er í forsvari fyrir flokkabandalag sjíta-múslíma á íraska þinginu, krafist þess að allir sádi-arabískir hryðjuverkamenn í íröskum fangelsum verði líflátnir. „Aftakan mun verða til þess að binda enda á valdatíð Al-Saud [konungsfjölskyldunnar í Sádi-Arabíu],“ sagði Abdelsamad.

Blóðinu ekki úthellt til einskis

Mótmælt var víða í dag, m.a. í Bretlandi og á Indlandi. Einnig voru mótmæli í borginni Karbala í Írak, þar var sendiráð Sádi-Arabíu nýverið opnað og kröfðust mótmælendur þess að því yrði lokað. „Ég sver að blóði klerksins var ekki úthellt til einskis,“ sagði einn mótmælenda við fréttamann AFP-fréttaveitunnar. „Við munum láta jörðina skjálfa undir fótum ykkar,“ bætti hann við og átti þar við konungsfjölskylduna í Sádi-Arabíu.

Hezbollah-hreyfingin í Líbanon, sem er hreyfing sjíta-múslíma, sakaði stjórnvöld í Sádi-Arabíu um að „myrða“ al-Nimr. Bandarísk stjórnvöld bæru siðferðislega ábyrgð vegna langvarandi stuðnings við Sádi-Arabíu.

Upplýsingamálaráðherra Sýrlands, Omran Zohbi, sagði aftökurnar í morgun vera glæp. Þar hefði frelsi og mannréttindi verið tekið af lífi. Hann hvatti alþjóðasamtök til að krefjast skýringa; aftakan hefði verið hræðilegt fjöldamorð. Mannréttindasamtökin Amnesty International sögðu í yfirlýsingu í dag að svo virtist sem sádi-arabísk stjórnvöld notuðu aftökur sem tæki til að lægja pólitískar öldur.

Skýr skilaboð til hryðjuverkamanna

En ekki hafa allir lýst yfir vanþóknun sinni á aftökunum. Yfirvöld í Sameinuðu arabísku furstadæmunum segja þær hafa verið nauðsynlegar.  Í sama streng tóku yfirvöld í Barein, en utanríkisráðherra landsins, Abdullah bin Zayed al-Nahyan, sagði aftökurnar hafa sent skýr skilaboð til hryðjuverkamanna og þeirra sem vilja efna til ófriðar og stuðla að óeiningu.

Kona úr hópi sjíta-múslíma í Sádi-Arabíu heldur á lofti mynd …
Kona úr hópi sjíta-múslíma í Sádi-Arabíu heldur á lofti mynd klerksins Nimr al-Nimrs sem var tekinn af lífi í morgun. AFP PHOTO / STR
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert