Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, bættist í morgun í hóp þeirra sem fordæma aftökur 47 fanga, þeirra á meðal sjítaklerksins Nimr al-Nimrs í Sádi-Arabíu í gærmorgun.
Nimr var einn af forsprökkum mótmæla gegn ríkisstjórn Sádi-Arabíu árið 2011 og var handtekinn í kjölfarið. Nimr gagnrýndi meðferð stjórnvalda á sjíta-múslímum, en landinu er stjórnað af súnní-múslímum.
Talsmaður Ban segir hann „dapran“ vegna atburðanna og að hann harmi þau ofbeldisfullu viðbrögð sem þeir hafa vakið og vísaði hann þar til þess þegar eldur var borinn að sendiráði Sádi-Arabíu í gærkvöldi. Ban hafði tekið mál Nimrs ítrekað upp við yfirvöld í Sádi-Arabíu.
„Al-Nimr og aðrir þeir sem teknir voru af lífi voru sakfelldir í kjölfar réttarhalda sem vekja ýmsar spurningar um eðli sakargiftanna og réttlæti dómskerfisins,“ segir talsmaður Ban.
Frétt mbl.is: Hóta „guðlegri hefnd“