Aftökur á 47 föngum í Sádi-Arabíu í gærmorgun voru fordæmdar í yfirlýsingu sem barst frá utanríkisráðuneyti Frakklands í kvöld. Meðal þeirra tekinn var af lífi í gær var sjítaklerkurinn Nimr al-Nimr og hefur það vakið mikla reiði og spennu í Miðausturlöndum.
Frakkar sögðust harma aftökurnar og kölluðu jafnframt eftir því að leiðtogar í Miðausturlöndum myndu gera „allt til þess að forðast það að æsa upp spennu á milli trúarhópa.“
Í yfirlýsingunni kom jafnframt fram að Frakkar væru á móti dauðarefsingum „á öllum stöðum og í öllum aðstæðum“. Þýska utanríkisráðuneytið tók í sama streng.
Talsmaður þýska utanríkisráðuneytisins sagði í samtali við AFP að dauðarefsing væri „ómannúðleg refsing sem við höfnum í öllum aðstæðum.“
Sagði hann jafnframt að þýsk stjórnvöld hafi áhyggjur af vaxandi spennu á svæðinu vegna aftöku al-Nimr.
Utanríkisráðuneyti Bretlands sendi jafnframt frá sér yfirlýsingu þar sem lögð var áhersla á andstöðu Breta gegn dauðarefsingu. al-Nimr var þó ekki nefndur á nafn í yfirlýsingunni og að mati blaðamanns AFP spila þar mikilvæg viðskiptasambönd Breta og Sádi-Araba inn í.
Fólk hefur hvatt David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, til að tjá sig um málið og hafa mannréttindasamtökin Reprieve sagt að Bretland megi ekki „horfa fram hjá grimmdarverkum.“
Al-Nimr var áberandi í mótmælum gegn ríkissstjórn Sádi-Arabíu árið 2011. Aftaka hans hefur vakið gífurlega reiði í löndum eins og Íran, Írak og Bahrian. Í Tehran réðust mótmælendur á sendiráði Sádi-Arabíu eftir að þeir báru eld að húsinu.