Hópur vopnaðra manna hernámu hluta náttúruverndarsvæðis í Oregon ríki Bandaríkjanna seint í gærkvöldi. Er hópurinn að mótmæla aðgerðum yfirvalda sem þeir segja hafa tekið af þeim landsvæði og sakfellingu tveggja bænda frá árinu 2001.
Náttúruverndarsvæðið sem umræðir heitir Malheur National Wildlife Refuge og er í um 50 km fjarlægði frá borginni Burns. Mennirnir tóku yfir svæðið í kjölfar friðsælla mótmæla gegn sakfellingu á tveimur bændum. Þeir Dwight Hammond og Steven Hammond eiga að hefja fangelsisvist á morgun en þeir voru dæmdir sekir um íkveikju fyrir fimmtán árum síðan.
Að sögn saksóknara kveiktu mennirnir, sem eru feðgar, eld sem eyðilagði stórt landsvæði í eigu yfirvalda árið 2001. Var það gert til þess að fela veiðiþjófnað samkvæmt frétt The Washington Post. Mennirnir voru dæmdir í fimm ára fangelsi.
Ammon Bundy sagði í samtali við dagblaðið The Oregonian að hann og tveir bræður sínir hafi gengið til liðs við tugi manns sem tóku þátt í því að hernema bygginguna í gærkvöldi. Þeir eru synir Clive Bundy sem hefur lengi verið þekktur fyrir mótmæli sín gegn bandarískum yfirvöldum.
Að sögn Bundy heldur hópurinn engum í gíslingu og vilji ekki grípa til ofbeldis. Þeir hafa þó ekki útilokað að það verið brugðist harkalega við reyni yfirvöld að koma þeim úr byggingunni. Hann sagði marga í hópnum tilbúna til að berjast og deyja í nafni málstaðarins sem að sögn Bundy snýst um að endurheimta stjórnarskrársvarinn rétt þeirra til þess að stjórna landareignum á svæðinu.
Hópurinn kallar einnig eftir því að Hammond feðgunum verði sleppt og segist vera tilbúinn til þess að halda svæðinu hernumdu í „mörg ár“.
Bundy sagði í samtali við The Oregonian að besta í stöðunni væri ef bændum sem „hent hafi verið“ af svæðinu geti komið aftur og endurheimt landsvæðin. Vilja þeir að náttúruverndarsvæðinu verði lokað „að eilífu“.
„Það sem við erum að gera er ekki uppreisn. Þetta er í samræmi við stjórnarskránna,“ útskýrði Bundy.