Breskir fjölmiðlar fjalla ítarlega um myndskeiðið í dag en Guardian segir að framburður vígamannsins bendi til þess að viðkomandi sé frá Lundúnum en eins megi heyra norðan framburð á orðinu Britain.
Breska leyniþjónustan og öryggisstofnanir rannsaka nú myndskeið sem hryðjuverkasamtökin Ríki íslams sendu frá sér í gær þar sem fimm menn eru teknir af lífi. Meðal þeirra sem koma fram í myndskeiðinu eru tveir sem tala með breskum hreim.
Í myndskeiðinu sést aftaka fimm manna sem sakaðir eru um að vera njósnarar á vegum breska ríkisins. Þar kemur fram grímuklæddur maður sem heldur á byssu og hótar forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, öllu illu. Maðurinn talar með breskum hreim og það gerir einnig lítil drengur, sex eða sjö ára gamall, sem kemur fram undir lok myndskeiðsins.
Samkvæmt frétt BBC er verið að bera saman upptökuna við allra Breta sem vitað er að hafa farið til Íraks og Sýrlands að berjast.
Er þetta sonur Grace Dare?
Litli drengurinn er klæddur í hermannafatnað og talar um að drepa villutrúarmenn undir lok myndskeiðsins sem er um tíu mínútur að lengd.
Samkvæmt frétt Telegraph er nú rannsakað hvort um son breskrar konu sem tilheyrir öfgasamtökunum sé að ræða. Konan sem um ræðir, Grace „Khadija“ Dare, er frá Lewisham í Suðaustur-Lundúnum, en hún er talin tengjast morðinu á breska hermanninum Lee Rigby sem var tekinn af lífi í Bretlandi af öfgamönnum. Drengurinn þykir minna mjög á son hennar, Isa Dare, en hún birti mynd af honum á samfélagsmiðlum í júlí þar sem hann heldur á AK-47 riffli.
Grace Dare er 22 ára gömul en hún er ættuð frá Nígeríu. Fjölskylda hennar er kristin en Dare snérist til öfgatrúar og sótti sömu mosku og morðingjar Rigbys.
Dare fór til Sýrlands árið 2012 og giftist þar Svía, sem er þekktur undir heitinu Abu Bakr en talið er að hann sé ekki lengur á lífi. Hún hefur verið áberandi á samfélagsmiðlum þar sem hún meðal annars hlakkaði yfir drápinu á James Foley og segist vilja verða fyrst breskra kvenna til þess að drepa gísl Ríkis íslams.
Minnir á Jihadi John
Maðurinn í myndskeiðinu þykir minna mjög á breska böðullinn Mohammed Emwazi, eða Jihadi John, sem var drepinn í loftárás Bandaríkjamanna í nóvember.
Í myndskeiðinu sem birt var í gær segist maðurinn að ekkert lát verði á vígum samtakanna og að dag einn verði ráðist inn í Bretland og saría-lögum komið á.
Fórnarlömbin fimm í myndskeiðinu eru klæddir í samfestinga, krjúpandi á hnjánum í eyðimörk. Þeir eru síðan skotnir í hnakkann eftir að hafa játað á sig njósnir fyrir Breta.
Einn þeirra segist hafa verið beðinn um að útvega upplýsingar um staðsetningu vígamanna Ríkis íslams, þar á meðal tveggja Breta, til þess að auðvelda loftárásir á skotmörk. Einhverjir fimmmenninganna segjast vera frá Raqqa í Sýrlandi en einn segist vera frá Benghazi í Líbíu. Enginn þeirra virðist vera frá Bretlandi.
Viðvörun til uppljóstrara
Talsmaður breska utanríkisráðuneytisins staðfestir við BBC að verið sé að rannsaka myndskeiðið.
Mohammed Emwazi kom fram á sínum tíma í myndskeiðum Ríkis íslams þar sem tveir bandarískir blaðamenn, James Foley og Steven Sotloff eru teknir af lífi og tveir breskir hjálparstarfsmenn, David Haines og Alan Henning.
Ritstjóri BBC í málefnum Miðausturlanda, Alan Johnston, segir að maðurinn í myndskeiðinu virðist vera arftaki Mohammeds Emwazis. Hann og fréttamaður BBC, Frank Gardner, sem er sérhæfður í öryggismálum, segja að liðsmenn Ríkis íslams þjáist af ofsóknarkennd þegar kemur að uppljóstrurum og að ólíklegt sé að að bresk yfirvöld muni upplýsa um hvort fimmmenningarnir hafi unnið fyrir Bretland.
Ekkert hefur enn verið gefið upp um hver maðurinn í myndskeiðinu er eða hvort hann er Breti. Emwazi var drepinn í drónaárás Bandaríkjamanna í Raqqa en talið er að það hafi verið uppljóstrari sem sagði til um hvar hann væri að finna.
Aftökumyndskeiðið í gær þykir til marks um að samtökin vilji sýna það svart á hvítu hvað bíði þeirra sem leki upplýsingum um starfsemi þeirra.
Ekki er óalgengt að Ríki íslams komi börnum fyrir í áróðursmyndskeiðum og það að koma barni með breskan framburð fyrir í myndskeiðinu sé gert til þess að leggja enn frekari áherslu á orð sín gagnvart breskum yfirvöldum.
Abu al-Furat, sem er liðsmaður samtaka sem berjast gegn yfirráðum Ríkis íslams í Raqqa, segir í samtali við BBC að það mjög ólíklegt sé að mennirnir sem eru teknir af lífi í myndskeiðinu hafi starfað fyrir Breta. Tilgangurinn með myndskeiðinu sé að sýna breskum yfirvöldum að það skipti engu að Emwazi hafi verið drepinn, maður komi í manns stað.
Breskir fjölmiðlar fjalla ítarlega um myndskeiðið í dag en Guardian segir að framburður vígamannsins bendi til þess að viðkomandi sé frá Lundúnum en eins megi heyra norðan framburð á orðinu Britain.