Forsprakkar vopnaðrar sveitar sem hefur tekið alríkisbyggingar í Oregon hernámi eru synir búgarðseiganda sem átti í frægum deilum við alríkisstjórnina árið 2014. Þeir telja sig verði borgaranna gegn ofríki alríkisstjórnarinnar og eru tilbúnir að beita valdi ef yfirvöld láta til skarar skríða gegn þeim.
Hernámið á Malheur-náttúruverndarsvæðinu í austurhluta Oregon á vesturströnd Bandaríkjanna hefur staðið yfir frá því á laugardag. Þá sölsuðu vopnaðir menn undir sig byggingar á svæðinu sem er um fimmtíu kílómetra utan við bæinn Burns. Áður höfðu þeir tekið þátt í friðsömum mótmælum gegn því að feðgar og búgarðseigendur hefðu verið dæmdir til lengri fangelsisvistar fyrir að hafa kveikt í alríkislandi árin 2001 og 2006.
Upphaflega voru feðgarnir Dwight og Steven Hammond dæmdir í þriggja mánaða og eins árs fangelsi fyrir íkveikjuna fyrir þremur árum og hafa þeir þegar afplánað þá refsingu. Í október komst áfrýjunardómstóll hins vegar að þeirri niðurstöðu að refsing þeirra hafi verið styttri en lögbundið lágmark Oregon-ríkis. Dæmdi hann feðgana til að afplána fjögur ár í fangelsi til viðbótar.
Feðgarnir ætluðu að gefa sig fram við yfirvöld í dag en þeir eru ekki hluti af hernáminu.
Á meðal þeirra sem hafa komið feðgunum til varnar eru bræðurnir Ammon og Ryan Bundy. Þeir fara fyrir vopnaða hópnum sem heldur alríkisbyggingunum á náttúruverndarsvæðinu. Liðsmenn hans eru sagðir ganga um vopnaðir rifflum klæddir í hermannabúninga.
Ryan sagði AP-fréttaveitunni um helgina að hann vilji skila landinu til sveitarstjórnarinnar svo að íbúar þar geti nýtt það án afskipta alríkisstjórnarinnar. Hann vonast jafnvel til þess að það hvetji aðra hópa til að grípa til aðgerða um öll Bandaríkin til að endurheimta land frá alríkisstjórninni. Bróðir hans Ammon hafði áður hvatt aðrar sveitir vopnaðra manna til að standa með þeim.
„Lokatakmarkið hér er að við erum hérna til þess að endurvekja rétt fólksins hérna svo að það geti nýtt landið og auðlindirnar. Allar,“ sagði Ryan. Í því felst að búgarðseigendur geti beitt gripum sínum á land, námumenn geti nýtt auðlindir í jörðu, skógarhöggsmenn geti höggvið skóg og veiðimenn geti veitt.
Sveitin hefur heitið því að halda byggingunum í hernámi eins lengi og þörf krefur. Komi til ofbeldis verði aðgerðum alríkisstjórnarinnar um að kenna.
„Ég meina, við erum hér til að koma aftur á röð og reglu, við erum hér til að endurverkja réttindi og það getur gengið friðsamlega og auðveldlega fyrir sig,“ sagði Bundy.
Ammon sagði við AP að þeir væru algerlega tilbúnir til þess láta hart mæta hörðu grípi alríkisstjórnin til aðgerða gegn þeim. Lögregla hefur ekki verið á svæðinu fram að þessu en alríkislögreglan FBI segist vinna með öðrum löggæsluyfirvöldum að því að finna friðsama lausn á ástandinu.
Bræðurnir eru synir búgarðseigandans Cliven Bundy sem varð þjóðþekktur í Bandaríkjunum fyrir árekstra sína við alríkisstjórnina í Nevada árið 2014. Orsök þeirra voru deilur um land í eigu alríkisstjórnarinnar sem hún ákvað að takmarka aðgengi að árið 1993 til að vernda skjaldbökutegund sem var í útrýmingarhættu. Með þeirri ákvörðun gátu nautgriparæktendur eins og Bundy ekki lengur beitt gripum sínum á landið.
Bundy lét sér það hins vegar sem vind um eyru þjóta og hélt áfram að láta nautgripi sína valsa um landið. Hann hefur meðal annars sagt að hann viðurkenni ekki lögmæti alríkisstjórnarinnar. Rúmum tuttugu árum síðar lét alríkisstjórnin loks kné fylgja kviði og gekk að sektum sem Bundy hafði verið dæmdur til að greiða í gegnum tíðina fyrir ólöglega beit gripa sinna.
Þegar fulltrúar alríkisstjórnarinnar hugðust taka nautgripina á alríkislandinu eignarnámi ræsti Bundy út lið vopnaðra manna. Stóðu þeir fyrir mótmælum og hótuðu alríkisstjórninni að fara í hart ef fulltrúar hennar reyndu að ganga að nautgripunum. Ammon, sem nú stendur í ströngu í Oregon, særðist meðal annars lítillega í átökum við fulltrúa alríkisstjórnarinnar í mótmælunum.
Mótmælin vöktu mikla athygli og var Bundy hampað mjög í hægrisinnuðum fjölmiðlum eins og Fox News. Margir þeirra reyndu þó að fjarlægja sig frá Bundy og félögum vegna vandræðalegra uppákoma eins og þegar einn mótmælendanna lýsti því hvernig þeir ætluðu að láta konur í fremstu víglínu ef til skotbardaga kæmi við alríkisstjórnina.
Eins vöktu ummæli Bundy um blökkumenn sem náðust á myndband hörð viðbrögð. Í því veltir hann meðal annars vöngum yfir hvort að blökkumenn í Bandaríkjunum væru mögulega hamingjusamari sem þrælar.
„Hvað gera þeir núna? Þeir eyða ungum börnum sínum og fangelsa ungu karlmennina sína vegna þess að þeir lærðu aldrei að tína baðmull. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort þeir hafi haft það betra sem þrælar að tína baðmull með fjölskyldulífi og að gera hluti eða á bótum hjá ríkinu,“ sagði Bundy meðal annars.
Skerfarinn í Harney-sýslu þar sem uppgjörið í Oregon fer nú fram segir að vopnaðan sveitin hafi komið til staðarins á fölskum forsendum.
„Þessir menn komu til Harney-sýslu og sögðust vera hluti af vopnuðum sveitum sem styðja búgarðseigendur á staðnum þegar þeir höfðu í raun annarlega ástæður til að reyna að steypa héraðs- og alríkisyfirvöldum af stóli í von um að setja af stað hreyfingu um öll Bandaríkin,“ segir Dave Ward, sýslumaður.
Blaðamaður Washington Post sem fjallaði um átök Bundy-fjölskyldunnar í Nevada árið 2014, segir að spenna hafi ríkt á milli landeiganda í vesturhluta Bandaríkjanna og alríkisstjórnarinnar í rúma öld, í raun frá því að ríkið hætti að úthluta landi og hóf að reyna að vernda hluta þess.
Umfram þessar deilur sé það pólitískt ergelsi sem virðist stjórna gerðum vopnuðu sveitarinnar í Oregon. Á meðan aðrir Bandaríkjamenn sem telja hagsmuni sína hunsaða af yfirvöldum leiti til jaðarframbjóðenda eins og Donald Trump eða Bernie Sanders til að láta óánægju sína í ljós, grípi búgarðseigendurnir til vopna til að ná sér niðri á alríkisstjórninni.
„Ég vil leggja áherslu á að bandaríska þjóðin veltir fyrir sér hvers vegna hún kemst ekkert áfram eða hvers vegna allt er að verða dýrara og maður fær minna og það er vegna þess að alríkisstjórnin tekur og notar landið og auðlindirnar,“ sagði Ammon Bundy við CNN um helgina.
Umfjöllun fjölmiðla og viðbrögð yfirvalda við þessum hópi vopnaðra hvíta karlmanna sem hefur tekið yfir opinberar byggingar hafa einnig vakið umtal og hafa verið sett í samhengi við lögregluofbeldi gegn blökkumönnum og öðrum minnihlutahópum. Bent er á að fjölmiðlar veigri sér við að kalla hernámsmennina hryðjuverkamenn. Þess í stað eru þeir kallaðir „vopnaðir aðgerðarsinnar“ eða „vopnuð sveit“ (e. militia).
Erfitt væri að ímynda sér að hópur múslíma sem sölsaði undir sig opinberar byggingar vopnaður rifflum fengi eins mildilega meðferð. Þá er sláandi munur á viðbrögðum yfirvalda við hópnum, sem er sannarlega vopnaður, og ítrekuðum uppákomum þar sem lögreglumenn skjóta óvopnaða blökkumenn til bana, oft fyrir að því er virðist lítið tilefni.
Ef fyrri útistöður Bundy-fjölskyldunnar við alríkisstjórnina eru fordæmisgefandi þá er ólíklegt að gripið verði til aðgerða gegn hópnum í Oregon. Eftir nokkurra daga umsátursástand í Nevada árið 2014 lúffaði alríkisstjórnin og skilaði Bundy nautgripunum. Hann hefur hvorki verið ákærður, né önnur tilraun verið gerð til að reka gripina af landinu eða innheimta sektirnar sem hann skuldar.
„Í ljósi upplýsinga um ástandið á staðnum og í samráði við lögregluyfirvöld höfum við ákveðið að hætta við að smala nautgripunum vegna alvarlegra áhyggna okkar um öryggi starfsmanna og almennings,“ sagði í tilkynningu frá alríkisstofnunarinnar sem hefur forráð yfir landinu.
Fyrri fréttir mbl.is: